145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hygg að sumir þingmenn átti sig ekki á því að það mál sem hér er rætt um, þingsályktunartillaga Vinstri grænna, sú ágæta tillaga, er ekki lengur spurning um lögbrot; það er ekki bara spurning um það hvaða lögum er framfylgt eða hvaða lög eru brotin. Þetta er orðið hápólitískt mál af þeirri stærðargráðu að forsætisráðherra sagði reyndar af sér á endanum. En áður en hann gerði það voru varðhundar búnir að verja hann fram í rauðan dauðann og málsvörnin vitaskuld fráleit frá fyrsta degi. Þá liggur á að hið háa Alþingi og hæstv. ríkisstjórn og þingmenn meiri hlutans sýni að þeim sé alvara í því að takast á við þessi sjónarmið, ekki bara út frá einhverjum lögtæknilegu sjónarmiði heldur einnig pólitískt. Það skiptir máli. Það er þess vegna sem þessi tillaga, þessi ágæta tillaga Vinstri grænna, á að vera hér á dagskrá. Við eigum að ræða hana og við eigum ekkert að hætta að ræða þetta mál fyrr en við verðum komin til botns í því og ekki bara út frá lögtækni heldur pólitískt. Það skiptir máli, virðulegi forseti.