145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

munnleg skýrsla menntmrh. um þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf., fjölmiðil í almannaþágu.

[16:34]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er loksins komin niðurstaða í viðræðum menntamálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins um þjónustusamning nokkrum mánuðum eftir að síðasti samningur rann út. Eins og fram kemur í bókun, sem þrír stjórnarmenn stofnunarinnar lögðu fram nýlega af þessu tilefni, er þessi samningur gerður í skugga verulegs niðurskurðar — og ég vil bæta við í skugga andstreymis og andróðurs sem þessi mikilvæga menningarstofnun og þessi mikilvægi fjölmiðill í almannaþágu hefur mátt sæta mörg undanfarin ár. Í þessum samningi birtist líka, eins og Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins hafa til að mynda bent á, augljóst misræmi milli þess lýðræðis- og menningarhlutverks sem stofnunin á að gegna í orði kveðnu og þeirra aðstæðna sem henni er gert að búa við til að rísa undir hlutverki sínu.

Um lýðræðishlutverkið segir í þessum samningi að Ríkisútvarpið eigi að gera fólki kleift að móta skoðanir sínar og draga ályktanir út frá réttum upplýsingum eftir því sem framast sé unnt hverju sinni. En eins og við höfum séð í atburðarás stjórnmálanna upp á síðkastið, á síðustu vikum, þá skiptir sjálfstæði og styrkur fjölmiðils öllu máli fyrir opna og lýðræðislega umræðu þegar mikið gengur á og er ómetanlegur styrkur í lýðræðissamfélagi, en því miður um leið vanþakkaður eiginleiki og ekki metinn að verðleikum. Það sjáum við í þeim árásum sem Ríkisútvarpið verður oft fyrir, meðal annars hér á þessum vettvangi, og hvernig ráðamenn reyna oft markvisst að sniðganga þennan fjölmiðil og taka sér þar með einhvers konar tyftunarvald yfir sjálfstæðum fjölmiðli.

Við skulum ekki gleyma þeirri ákvörðun stjórnarmeirihlutans í desember síðastliðnum að skerða útvarpsgjaldið, aðaltekjustofn Ríkisútvarpsins, annað árið í röð. Sú ákvörðun hefur orðið til þess að Ríkisútvarpið neyðist til að skera niður grunnstarfsemina um 213 milljónir á þessu ári. Er það niðurskurður sem kemur til viðbótar miklum niðurskurðaraðgerðum undanfarin ár þar sem höggvin hafa verið stór skörð í starfsmannahópinn, dagskrárgerðina og grunnþjónustuna. Enn sem fyrr er Ríkisútvarpið knúið til þess að höggva í sama knérunn, segja upp fólki og skera niður grunnþjónustu og dagskrárgerð til skaða fyrir hlutverk og virkni þessarar mikilvægu stofnunar, sem er útvörður lýðræðis og flaggskip hinnar opnu og upplýstu umræðu.

Samningurinn gerir ráð fyrir að dagskrárframboð og þjónusta geti á samningstímanum dregist saman um allt að 10% miðað við árið 2015. Þessi þjónustusamningur er þannig samningur um skerta þjónustu, eins og bent hefur verið á, og hann vegur að getu Ríkisútvarpsins til að reka öfluga fréttastofu og halda uppi öflugri dagskrárgerð. Það sem er kannski ekki síst mikilvægt, hann frestar löngu tímabærri skráningu og hagnýtingu á eldra efni Ríkisútvarpsins, en þar eru fólgin ómetanleg menningarverðmæti sem ég efast um að fólk almennt geri sér fulla grein fyrir hvers virði eru.

Í nafni jákvæðninnar má líka segja að í þessum samningi megi finna nokkur atriði til bóta. Ég vil til að mynda nefna að það skuli gengið út frá því að þjónustan við landsbyggðina skuli vera tryggð og kveðið á um að innheimt útvarpsgjald miðað við árið 2016 lækki ekki að raunvirði á samningstímanum. Fjallað er um sérstaka fjárveitingu upp á 175 milljónir, sem þegar hefur verið samþykkt á fjárlögum, til að efla leikið íslenskt sjónvarpsefni. Þannig má finna ljósa punkta í þessum þjónustusamningi og kannski segja að þetta sé einhvers konar varnarsigur.

Niðurstaðan er engu að síður sú að þessi þjónustusamningur, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, boðar ekki nýja tíma í rekstri Ríkisútvarpsins. Hann heldur í horfinu eftir langvarandi fjársvelti og andstreymi þessarar mikilvægu stofnunar sem allar kannanir sýna að almenningur vill standa vörð um og efla frekar. Þar gætum við gert betur.