145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

munnleg skýrsla menntir. um þjónustusamning við Ríkisútvarpið of., fjölmiðil í almannaþágu.

[17:30]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að færa okkur skýrslu um þennan samning og gefa okkur tækifæri til að ræða hann. Ég fagna þessum samningi mjög. Hann tryggir það hvernig framkvæmdarvaldið hyggst framkvæma og fylgja eftir þeim lögum og þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið hér á Alþingi og hvernig þeim fjármunum sem þingið hefur veitt í þetta verður forgangsraðað út frá þeim skilyrðum sem þingið setti með þeim fjárveitingum.

Það góða við þennan samning miðað við fyrri samninga er að hann eykur gagnsæið í því hvernig fjármunir skattgreiðenda eru nýttir og hvernig Ríkisútvarpið mun sinna hlutverki sínu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það liggi á borðunum hvernig verja eigi þeim fjármunum skattgreiðenda sem Alþingi ákveður að verja í hvern málaflokk fyrir sig, að eigandinn hafi eitthvað um það að segja hvernig stofnanir þess og fyrirtæki nýta þá fjármuni. Það er mjög gott. Ég fagna því sérstaklega hvernig innra eftirlit og gæði eru tryggð, en það er svolítið falið í hendur fyrirtækisins sjálfs og starfsmannanna að útfæra það.

Hér hefur mikið verið rætt um að ekki sé nægt fjármagn til að sinna þessum hlutverkum. Það er auðvitað Alþingis að ákveða hversu mikið fjármagn fer til stofnunarinnar og í ákveðna þætti eftir atvikum. En mér sýnist að Ríkisútvarpinu hafi tekist vel til að undanförnu í að efla starfsemi sína og mynda meiri sátt um dagskrárgerð og sinn rekstur, það hefur verið gert með því að efnisframleiðsla hefur verið að færast til sjálfstæðra framleiðenda og með því að aukin áhersla hefur verið lögð á leikið efni og á efni fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Það hefur tekist þrátt fyrir, eins og menn hafa viljað láta, að fjármagn hafi dregist saman — ég held reyndar að það hafi kannski aukist örlítið.

Með því að leggja jafn skýrar áherslur og hér er gert og skilgreina starfsemina er hægt að ná markmiðunum og nýta fjármagnið betur. Ég held að þessi samningur sé góður til þess. Við þurfum svo að taka umræðuna annars staðar um það hvernig fyrirkomulag við viljum hafa á ríkisfjölmiðlinum okkar.