145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

munnleg skýrsla menntmrh. um þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf., fjölmiðil í almannaþágu.

[17:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar til yðar fyrir að taka þetta mál á dagskrá og jafnframt þakka hv. þingmönnum fyrir þátttökuna í umræðunum sem ég tel að hafi verið gagnlegar og skerpt á ýmsum þeim þáttum sem tekið er á í þessum samningi.

Ég vil fyrst taka fyrir þann þátt umræðunnar sem hefur snúið að fjármögnun Ríkisútvarpsins. Ég held að nauðsynlegt sé að hafa mjög í huga að það fyrirkomulag sem við höfum með lögum um fjármagn til Ríkisútvarpsins er þannig að fjárveitingavald Alþingis liggur til grundvallar. Það er ekki hægt í samningi sem þessum að taka fram fyrir hendurnar á Alþingi. Þar af leiðandi er ekki hægt að hafa meiri tryggingar en þær að leggja upp með þau ákvæði sem þegar eru í lögum um Ríkisútvarpið hvað varðar upphæð útvarpsgjaldsins, sem er 16.400 kr., og það er þá lagt til grundvallar. Síðan eru ákvæði um að þetta haldi gildi sínu, en um leið líka ákvæði um að ef það gerist ekki þurfi að taka samninginn upp og skoða þær skyldur og þau verkefni sem Ríkisútvarpinu er falið að leysa í ljósi þess ef fjármagnið er minna, eða meira eftir atvikum, heldur en gert var ráð fyrir við gerð þessa samnings.

Það má ekki gleyma því og það er ekki hægt til dæmis, eins og ég heyrði í umræðunni, að kalla eftir því að ráðherra sýni vilja sinn eða að gert sé ráð fyrir auknu fjármagni eða þetta sé einhvers konar viljayfirlýsing um meira fé eða fjármagn til Ríkisútvarpsins. Það er fráleit nálgun að mínu mati, virðulegi forseti, ég verð að leyfa mér að segja það, vegna þess að hér er um að ræða samning sem er grundvallaður á lögum og vilja fjárveitingavaldsins, Alþingis, um hversu miklum fjármunum skuli varið til Ríkisútvarpsins. Framkvæmdarvaldið getur ekki tekið fram fyrri hendurnar á fjárveitingavaldinu í þeim efnum, það er augljóst. Þetta vildi ég segja þar sem ýmsu því sem snýr að fjármögnuninni, bæði hvað varðar verðtryggingarákvæði, útvarpsgjaldið sjálft og síðan það sérstaka framlag sem Alþingi ákvað með lögum að mundi renna til Ríkisútvarpsins, 175 milljónirnar, fylgdi lýsing af hálfu þingsins en ekki frá mér sem ráðherra. Það er Alþingi sem ákveður að það eigi að beina þessu í ákveðinn þátt starfseminnar. Þess vegna er þannig haldið á varðandi þennan þáttinn, þ.e. þessar 175 milljónir, að ef Alþingi ákveður að framlengja það ekki er eðlilegt að dregið sé úr þeim þættinum sem Alþingi sjálft hafði ætlað þá fjármuni til. Þannig er það hugsað, virðulegi forseti. Fjárveitingavaldið er að sjálfsögðu hjá þinginu.

Þetta aftur á móti opnar á aðra umræðu sem ég held að sé ágætt að taka, að skoða t.d. það fyrirkomulag sem Danir hafa varðandi fjármögnun á danska ríkisútvarpinu, hvernig það er gert. Við gætum velt því fyrir okkur hvort við viljum í framtíðinni taka upp svipað fyrirkomulag og þar er.

Annað atriði sem kom fram og ég vil gera að umræðu og hefur verið nokkuð í umræðu á opinberum vettvangi snýr að siðareglum og setningu siðareglna. — Fyrirgefðu, virðulegi forseti, ég vil skjóta einu inn áður ég kem að þeim, það snýr að umræðunni um Gullkistuna. Það er ekki verið að slá einu eða neinu á frest þar. Þar er aðeins verið að viðurkenna að í þessum samningi er ekki hægt að útdeila fjármunum umfram þá fjármuni sem liggja fyrir af hálfu Alþingis og það sem lagt var upp með, að gerð sé áætlun um það hvað kostar að færa þennan menningararf yfir á stafrænt form. Síðan þarf að taka sérstaka ákvörðun á grundvelli þess mats. Það er ekki metnaðarleysi eða frestun á verkefninu heldur er einfaldlega verið að beina því í þann farveg sem eðlilegur er.

Hvað varðar siðareglur og annað sem til mín var beint sérstaklega og hver ástæðan var fyrir því og af hverju talað var um hlutleysi varðandi fréttir fyrir börn eða almennt fréttastofuna, þá vil ég segja að það er eðlilegt í ljósi ákvæði laga um hlutleysi og hlutlægni Ríkisútvarpsins að kveðið sé á um það í samningnum. Það hefur verið gert þannig í gegnum tíðina. Ég vitna til samningsins sem gerður var 24. maí 2011 en þar er tekið fram sérstaklega varðandi fréttir og tengt dagskrárefni að gæta eigi sanngirni og hlutlægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð og að lýðræðislegar grundvallarreglur, mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana skuli haldið í heiðri o.s.frv.

Þetta er ekki skrifað af einhverju sérstöku tilefni, það er bara eðlilegt að það sé tekið fram með þessum hætti í svona þjónustusamningi, rétt eins og við gerum í þeim samningi sem undirritaður var 5. apríl nýverið.

Það er vissulega nýbreytni hvað varðar barnaefni að boðið er upp á sérstakar barnafréttir. Að sjálfsögðu hljóta að gilda sömu reglur um þær fréttir og annað fréttatengt efni Ríkisútvarpsins, eðlilega.

Hvað varðar siðareglurnar vil ég segja þetta, virðulegi forseti. Það hefur komið skýrt fram að það var útvarpsstjóri sem hafði haustið 2014 frumkvæði að því að þessar reglur yrðu unnar. Hann lagði það til sérstaklega að starfsfólkið mundi vinna reglurnar. Það er starfsfólkið sjálft sem leggur grunn að þeim og horfir þá meðal annars til þeirra reglna sem gilda um almannaútvarp annars staðar á Norðurlöndunum og í Bretlandi. Mér er kunnugt um að fenginn var fjöldi sérfræðinga að verkinu og kallað var eftir meðal annars fyrirlesurum og sérfræðingum frá Siðfræðistofnun og öðrum til að aðstoða starfsmennina við vinnuna.

Mér hefur fundist nokkuð miður hvernig um þetta hefur verið rætt og algjörlega fráleitt að gera því skóna að þetta sé að sérstakri kröfu minni eða eftir forskrift frá menntamálaráðherra. Hér eru starfsmenn Ríkisútvarpsins að vinna mjög þarfa vinnu sem á að fagna þar sem þeir leggja upp með siðareglur sem eru í samræmi við það sem gerist hjá öðrum almannaútvörpum í löndunum í kringum okkur og við berum okkur saman við.

Siðareglurnar tóku síðan gildi 22. mars síðastliðinn. Þá vil ég benda á að þessi samningur var undirritaður 5. apríl. Ég hef ekki heyrt neitt annað en að ágæt sátt sé um siðareglurnar og þær séu einmitt í samræmi við það sem menn þekkja í löndunum í kringum okkur. Þess vegna hefur mér fundist svolítið sérstakt að heyra umræðuna um þær og hefur fundist það nokkuð miður, af því að ég tel að um mjög merkilegt og jákvætt framtak starfsmanna Ríkisútvarpsins sé að ræða.

Að lokum vil ég segja og taka undir það sem hér hefur verið sagt um að stjórn Ríkisútvarpsins og starfsmenn hafa unnið mjög gott starf á undanförnum missirum við að ná tökum á erfiðum rekstri, vissulega. Ég tel að sú nýbreytni og þær áherslur sem hafa verið á undanförnum missirum og birtast síðan í þessum þjónustusamningi, áherslur á menningarhlutverk (Forseti hringir.) Ríkisútvarpsins, áhersla á efni fyrir börn og ungmenni, áhersla á það að kaupa efni eða fá efni frá utanaðkomandi aðilum, frá sjálfstætt starfandi framleiðendum, sé allt til að efla (Forseti hringir.) Ríkisútvarpið, efnisgerð þess og alla þá þætti sem Ríkisútvarpinu er ætlað að standa við samkvæmt lögum.