145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[17:42]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um útlendinga. Með því eru lagðar til heildarbreytingar á lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Til samræmingar eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.

Frumvarpið er afurð þverpólitískrar þingmannanefndar sem skipuð var vorið 2014 af fyrrverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Meginmarkmið endurskoðunarinnar voru einkum af tvennum toga. Annars vegar var markmiðið að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga. Í frumvarpinu er kveðið á um réttarstöðu og réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins og hyggjast dveljast hér. Þá veitir frumvarpið enn fremur heimild til eftirlits með komu útlendinga til landsins og skapar grundvöll fyrir alþjóðlega vernd erlendra ríkisborgara og ríkisfangslausra einstaklinga sem slíkan rétt eiga samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.

Hins vegar var markmið endurskoðunarinnar að breyta núgildandi löggjöf svo að heimild til dvalar á Íslandi gæti betur en áður samrýmst þörfum samfélagsins og samkeppnishæfni á alþjóðavísu. Á síðustu árum hefur samkeppni um sérhæft starfsfólk aukist til muna. Ýmsar reglur og framkvæmd í núgildandi lögum og reglum hafa verið taldar hamlandi fyrir íslensk fyrirtæki í þeirri samkeppni og þá sérstaklega þegar sérfræðingar og sérhæft starfsfólk á í hlut. Á sama tíma og lagt er fram frumvarp um skattaívilnanir til handa útlendum sérfræðingum er einnig mikilvægt að líta til þess hvernig komu einstaklinga til Íslands er háttað og hvernig einfalda megi og auðvelda greiðan aðgang erlendra sérfræðinga hingað, hvort sem um er að ræða dvöl til skemmri eða lengri tíma.

Fjölmargir aðilar, stofnanir, hagsmunasamtök og mannréttindasamtök komu að undirbúningi frumvarpsins, auk þess sem góð samvinna var við starfsmenn Útlendingastofnunar, Vinnumálastofnunar og velferðarráðuneytisins. Nefndin undir forustu hv. þm. Óttars Proppés hélt samráðsfundi með fulltrúum atvinnulífs og vinnumarkaðar og hagsmunaaðilum hælisleitenda, fulltrúum lögreglu og landamæraeftirlits, sérfræðingum um málefni barna og fjölskyldna og fulltrúum mennta- og vísindasamfélagsins, auk þess sem leitað var ráðgjafar fjölmargra sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum. Megintilgangur vinnu- og samráðsfundanna var að leita eftir ólíkum sjónarmiðum þeirra hagsmunaaðila sem töldu þörf á breytingum á núgildandi útlendingalögum.

Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að leggja þetta mál í þennan farveg. Ég þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í störfum nefndarinnar fyrir framlag þeirra og öðrum þeim sem tóku þátt í störfum hennar. Ég vona svo sannarlega að okkur auðnist að halda áfram góðu samstarfi í málaflokknum.

Hér er um að ræða ört vaxandi málaflokk þar sem tekist er á við erfið og um margt viðkvæm mál. Þau krefjast ábyrgra og yfirvegaðra ákvarðana sem geta haft mikil áhrif á líf og möguleika fólks í samfélaginu í heild. Það er brýnt að þingið geti rætt þessi mál af yfirvegun og heildstætt eins og það hefur gert.

Nefndin skilaði ráðherra drögum að lagafrumvarpi í nóvember síðastliðnum. Eftir það hafa sérfræðingar ráðuneytisins unnið að nokkrum breytingum á frumvarpinu sem miða fyrst og fremst að því að bregðast við flóttamannavandanum og gæta samræmis við breytt lagaumhverfi í nágrannalöndum. Aldrei hafa verið fleiri á flótta í heiminum. Það verður áfram brýnt að vera á vaktinni hvernig Ísland getur og þarf á hverjum tíma að endurmeta lög og reglur til samræmis við þróun mála.

Um 60 milljónir manna hafa af ólíkum ástæðum flúið heimaland sitt og eru á vergangi í heiminum samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Við stöndum frammi fyrir afar óvenjulegum aðstæðum og við þurfum að gera hvað við getum til að byggja upp réttlátt og skilvirkt kerfi til að mæta þeim aðstæðum. Það felst meðal annars í því krefjandi verkefni að greina á milli þess hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd sé að flýja vopnuð átök eða persónubundnar ofsóknir og sé þar af leiðandi ekki óhætt að snúa aftur til heimalandsins eða hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd sé fyrst og fremst í leit að betra lífsviðurværi en sé jafnframt óhætt að snúa til baka til heimalands fái hann synjun um dvalarleyfi hér. Verkefni okkar er að tryggja réttlátt, sanngjarnt og mannúðlegt kerfi til að meta hvert mál fyrir sig.

Nágrannalöndin hafa verið að skoða sínar skilgreiningar og forgangsraða betur en áður með hliðsjón af þessu. Við sjáum auknar reglur vegna þeirra sem ekki eru flóttamenn samkvæmt skilgreiningu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Vernd á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga er neyðarkerfi sem komið var á fót í þeim tilgangi að vernda fólk sem flýr ofsóknir eða vopnuð átök.

Virðulegi forseti. Vandinn í heiminum er þess eðlis að þjóðir sjá ekki annað fært en að bregðast við þar sem neyðin er mest og gera hvað þær geta til að koma fólki í öruggt skjól. Á sama tíma hafa ríki þurft að afgreiða hraðar umsóknir þeirra sem ekki eiga rétt á alþjóðlegri vernd enda séu þeir hvorki að flýja vopnuð átök né ofsóknir. Það er okkar að standa vörð um neyðarkerfið og veita þeim skjól sem þess þurfa. Á sama tíma þurfum við að senda skýr skilaboð til þeirra sem vilja nýta sér þetta neyðarkerfi þrátt fyrir að vera óhultur í eigin landi. Það gerum við meðal annars með hraðri og skilvirkri málsmeðferð. Það er afar mikilvægt að tryggja að kerfið sé til staðar fyrir þá sem raunverulega þurfa á því að halda.

Hæstv. forseti. Við höfum ekki farið varhluta af fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd um alla Evrópu. Við, líkt og nágrannaríkin, höfum eins og áður sagði brugðist við þeirri þróun með breyttri löggjöf, m.a. með því að einfalda umsóknar- og afgreiðslukerfið, hraða málsmeðferðartíma og skýra réttarstöðu. Á alþjóðavísu eru miklar breytingar í farvatninu sem erfitt er að segja til um hvernig vindur fram, hvort sem um er að ræða Schengen-samstarfið eða Dyflinnarreglugerðina sem nú er til endurskoðunar. Í málaflokki sem þessum er mikilvægt að veitt sé fullnægjandi þjónusta og að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru séu vel nýttir.

Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar sem stuðla að skilvirkari og betri þjónustu við útlendinga. Eins og áður sagði á það við um erlenda sérfræðinga á vinnumarkaði, námsmenn, fræði- og vísindamenn, umsækjendur um alþjóðlega vernd og fleiri. Til þess að slík markmið nái fram að ganga þurfa stjórnvöld í málaflokknum að eiga áfram í virku samstarfi innbyrðis sem og við hlutaðeigandi aðila, auk þess sem ákveðin endurskoðun og sveigjanleiki þarf ávallt að vera til staðar svo að lagaumgjörðin sé í takt við þá lýðræðislegu þróun, breytingar og munstur fólksflutninga í heiminum, efnahagslegar framfarir, stöðu og þarfir vinnumarkaðar, þjóðaröryggi og aðstæður í alþjóðasamfélaginu.

Meðal helstu nýmæla í frumvarpinu frá núgildandi lögum má nefna að hlutverk stjórnvalda sem tengjast málaflokknum eru betur skilgreind, þar með talið hlutverk Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála og flóttamannanefndar. Samræmi er aukið á milli réttinda sem einstaklingar geta öðlast á grundvelli laga um útlendinga annars vegar og laga um atvinnuréttindi útlendinga hins vegar. Meginatriðið hér er að auðvelda útlendingum samskipti við íslensk stjórnvöld og minnka flækjustig. Samtök atvinnulífs og iðnaðar hafa lengi talað fyrir breytingum, bæði á útlendinga- og atvinnuréttindalöggjöf, frá sjónarhóli atvinnulífs sem hefur mikla hagsmuni af því að laða að erlenda sérfræðinga til að byggja upp alþjóðlega þekkingu. Sama má segja um háskóla, fræðasamfélagið og rannsóknir.

Þróun viðskiptalífs á Íslandi verður sífellt flóknara. Því getur það reynst nauðsynlegt að ráða til starfa hérlendis tímabundið sérhæfða erlenda starfsmenn til að sinna ákveðnum verkefnum og miðla þekkingu til Íslendinga. Slík þekkingarmiðlun er einnig til þess fallin að auka þekkingu og efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs í alþjóðlegum samanburði. Mikilvægur liður í að tryggja samkeppnishæfni Íslands er að stjórnvöld stuðli að því að hægt sé að laða þá sérfræðiþekkingu inn í íslenskt atvinnulíf og háskólasamfélag. Við því er reynt að bregðast með breytingum í frumvarpinu. Þeir þættir sem lúta að því að koma til móts við þarfir atvinnulífs, vinnumarkaðar og háskóla- og vísindasamfélags felast einkum í því að réttindum og skilyrðum atvinnutengdra dvalarleyfa á að breyta. Þar má helst nefna að veitt er skýr heimild til að sækja um dvalarleyfi þrátt fyrir að einstaklingur sé staddur hér á landi þegar um atvinnutengt leyfi er að ræða. Þetta er mikið grundvallaratriði.

Þá eru lagðar til ýmsar breytingar á réttindum og réttindasöfnun sem fylgja dvalarleyfum. Dvalarleyfi vegna sérfræðiþekkingar eru veitt til tveggja ára í stað eins. Aukinn sveigjanleiki er veittur vegna atvinnuleyfis maka og námsmannaleyfi verða veitt til lengri tíma. Þegar námsmaður hefur lokið námi er honum gefið svigrúm til að sækja um vinnu í landinu. Þá er aukið svigrúm vegna þeirra sem hingað koma á grundvelli sérfræðiþekkingar í þeim tilvikum þegar þeir hafa ekki þörf fyrir að skrá sig inn í landið og þiggja ekki tekjur hér á landi. Þá er lagt til í frumvarpinu að koma á fót hraðafgreiðslu umsókna í vissum tilvikum, svo fátt eitt sé nefnt.

Sérstakur kafli er um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, jafnframt því sem slíkum dvalarleyfum hefur verið fjölgað. Ekki er um að ræða útvíkkun á heimild núgildandi laga, heldur er verið að tryggja betur en nú að heimild til dvalar sé í samræmi við tilgang hennar. Aukin áhersla er lögð á réttindi barna. Það kemur meðal annars fram í sértækum ákvæðum um réttindi barna í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, skilgreiningu á því hvað er barni fyrir bestu, rétti barna til að umgangast foreldra sína, reynt er að tryggja börnum skýrari vernd, m.a. með skipun hagsmunagæslumanns, auk þess sem reglur um aldursgreiningu og vegna fylgdarlausra barna eru endurskoðaðar.

Kaflar um alþjóðlega vernd hafa verið endurskoðaðir og uppfærðir í samræmi við alþjóðlega, evrópska og norræna þróun. Þá eru breytingar lagðar til á kærunefnd útlendingamála í þeim tilgangi að tryggja aukna skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma. Lagt er til að framkvæma beri ákvarðanir Útlendingastofnunar eins fljótt og auðið er þegar um synjun er að ræða í málum umsækjenda sem koma frá öruggum ríkjum og umsóknir þar af leiðandi taldar tilhæfulausar með vísan til fóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Frumvarpið felur í sér ýmsar breytingar sem stuðla að því að íslensk stjórnvöld uppfylli betur alþjóðlegar skuldbindingar sínar með því að koma ákvæðum tiltekinna samninga til framkvæmda. Má þar nefna ákvæði um ríkisfangsleysi sem tryggja sjálfstæðan rétt ríkisfangslausra einstaklinga til alþjóðlegrar verndar. Það er liður í því að innleiða samninga um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954 og samning um að draga úr ríkisfangsleysi frá 1961. Auk þess hafa nokkrar breytingar verið gerðar svo að Ísland uppfylli betur Istanbúl-samninginn um ofbeldi gegn konum.

Frumvarpið felur í sér nánari ákvæði um móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og eftir atvikum fyrir útlendinga í ólögmætri dvöl eða mansalsfórnarlömb. Ákvæðin miða að því að auka öryggi og mannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í þeirri miðstöð færi fram samvinna ýmissa aðila, Útlendingastofnunar, lögreglu, félagasamtaka, barnaverndaryfirvalda og félagsþjónustu, heilbrigðisyfirvalda og annarra sem þurfa að koma að málum umsækjenda. Hugmyndin er sú að umsækjendur um alþjóðlega vernd geti fengið nauðsynlega þjónustu á einum stað, þar með talið læknisþjónustu, en hún kann að vera áríðandi til að renna stoðum undir frásögn umsækjenda hafi viðkomandi til að mynda sætt pyndingum eða vanvirðandi meðferð. Að sama skapi þarf að veita stjórnvöldum svigrúm til að geta gripið til ráðstafana ef rökstuddur grunur er um að ógn stafi af umsækjendum um alþjóðlega vernd og gert er ráð fyrir að slíkt mat fari fram í miðstöðinni. Þessi miðstöð á að vera til hagsbóta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og á að tryggja að mannréttinda þeirra sé gætt.

Tekið skal fram að samhliða framlagningu þessa frumvarps er á vegum ráðuneytisins unnið að ýmsum verkefnum til úrbóta sem ætlað er að styðja og efla Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála með sérstakri áherslu á hraða málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Umbótaþættirnir eru ekki allir bundnir við lagabreytingar, en frumvarpið er þó mjög mikilvægur þáttur í þessu starfi, m.a. hvað varðar starf kærunefndar útlendingamála. Verið er að byggja upp samstarf við þá aðila sem koma að mati og greiningu á umsækjendum um alþjóðlega vernd; lögreglu, alþjóðlegu fólksflutningastofnunina, IOM, sveitarfélög, Rauða krossinn og íslensk grasrótarsamtök.

Hæstv. forseti. Drög að frumvarpinu voru kynnt á vefsíðu ráðuneytisins í ágúst á síðasta ári í kjölfar kynningarfundar þar sem helstu hagsmunaaðilum sem tekið höfðu þátt í virku samráði við gerð frumvarpsins var boðið. Eftir að hafa tekið tillit til umsagna afhenti nefndin ráðherra drögin formlega. Í kjölfarið hófst vinna við lokafrágang frumvarpsins og athugun á þróun löggjafar á Norðurlöndum og vinnu við lokafrágang þess. Í desember á síðasta ári var frumvarpið svo aftur kynnt á vef ráðuneytisins og aftur gefinn frestur til athugasemda. Þannig hafa frumvarpsdrögin tvívegis verið birt á vef ráðuneytisins til að tryggja að umfjöllun yrði nægjanleg og vönduð og fá nauðsynleg viðbrögð og athugasemdir. Ráðuneytið hefur síðan unnið úr þeim athugasemdum sem hafa borist.

Virðulegi forseti. Endurskoðun á lögum um útlendinga er aðkallandi og er ein meginforsenda þess að sem mest sátt geti ríkt um málaflokkinn. Eins og áður hefur komið fram þarf ný löggjöf að taka mið af og samræmast þörfum íslensks samfélags með tilliti til hagvaxtar, aukinna krafna um samkeppnishæfni á alþjóðavísu, auk þess sem gæta þarf að því að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga. Við eigum ærið verkefni fyrir höndum að halda utan um þennan málaflokk næstu árin og lykilforsenda fyrir góðum árangri er gott samstarf allra hlutaðeigandi aðila.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði vísað til hæstv. allsherjar- og menntamálanefndar og þóknanlegrar 2. umr.