145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[18:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað fjöldamörg ákvæði í frumvarpinu sem eru þróun á gildandi rétti eða skýring á gildandi rétti, nýmæli að sjálfsögðu líka sem eru mörg hver mjög mikilvæg. Það sem svífur yfir vötnum í frumvarpinu og mér þykir kannski sjálfri það athyglisverðasta er að við erum að reyna að ná saman um annars vegar það að hafa kerfi sem virkar vel og er okkur til sóma um leið og við gætum alveg sérstaklega að því að hafa mannréttindamál í hávegum. Það er þessi samhljómur sem mér þykir að hafi tekist sérstaklega vel til í vinnu nefndarinnar sem er grundvöllur í málinu.

Það sem snýr að því sem hv. þingmaður spyr um finnst mér sérstaklega vera það að menn geta verið á landinu þegar þeir sækjast eftir atvinnuleyfi. Það er grundvallarbreyting frá því sem við þekkjum núna, það er ekki þannig núna og hefur verið gagnrýnt verulega mikið. Ég held að sú breyting muni skipta gríðarlega miklu máli. Við getum bara litið á þá maka sem hér eru staddir og gætu til dæmis (Forseti hringir.) nýtt sér þessar breytingar.