145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[18:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar að hægt sé að líta á þetta með fleiri en einum gleraugum. Ég held líka að þarna sé um að ræða ákveðið öryggiskerfi fyrir barnið, ef við lítum á það úr þeirri átt. Ég held að það sé ekki síður mikilvægt að gera það þegar við metum þetta ákvæði.

Að öðru leyti segi ég um þær breytingar sem ráðuneytið lagði til: Ég sat ekki í þeirri ágætu nefnd sem smíðaði grundvöllinn að þessu, ég hygg samt að sum þau atriði sem lögð voru til síðar hafi komið til umræðu í vinnu nefndarinnar. En megintilgangurinn með þeim breytingum sem lagðar voru til, og birtast í þessu frumvarpi, er sú öra þróun sem orðið hefur á undanförnum mánuðum í málefnum sem varða löggjöf um útlendinga. Það er ekki einskorðað við þetta mál. Við sjáum (Forseti hringir.) fram á að fleiri atriðum verði breytt í framhaldinu.

Eins og ég sagði áðan þá vitum við að verið er að endurskoða Dyflinnarreglugerðina og Schengen er undir miklum loftárásum liggur mér við að segja. Ég held að fyrir okkur sem trúum á þetta kerfi, því að það geri ég, (Forseti hringir.) skipti máli að fylgja vel þeim nágrannalöndum sem trúa nákvæmlega því sama og við. Það er í því ljósi sem frumvarpið lítur svona út af okkar hálfu.