145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[18:14]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er verulegur áfangi og full ástæða til að óska til hamingju með það þegar lögð er á borð þingsins vegleg heildarlöggjöf um jafn mikilvægan en þó um leið viðkvæman málaflokk eins og þann sem er til umræðu. Eins og hefur komið fram í máli hv. þingmanna í andsvörum við ráðherrann verða einstök atriði til rökræðu og skoðanaskipta í meðförum málsins, en engum dylst að markmiðin með frumvarpinu eru góð og þörfin er brýn. Það er til fyrirmyndar hvernig reynt var að ná þverpólitískri samstöðu um smíði frumvarpsins og tókst það að mestu leyti. Þess vegna held ég líka að við finnum öll til ábyrgðar gagnvart því að leggja málinu gott til í þinginu. Það eru fleiri frumvörp til umræðu í dag sem miða einmitt að því. (Forseti hringir.)

En mig langaði til að inna ráðherrann nánar eftir stjórnsýsluþætti (Forseti hringir.) málsins. Það er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að allt utanumhald málaflokksins (Forseti hringir.) verði á hendi einnar stofnunar, Útlendingastofnunar. (Forseti hringir.) Hvernig horfir það við ráðherranum (Forseti hringir.) að hugsa það kannski aðeins öðruvísi, m.a. á grundvelli annars frumvarps sem liggur fyrir þinginu í dag (Forseti hringir.) um umboðsmann flóttamanna?