145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Panama-skjölin og afleiðingar þeirra.

[10:39]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra segist hafa plan um að kjósa með haustinu og þess vegna þurfum við ekki að ræða neitt um þessi mál undir liðnum um fundarstjórn forseta.

Ástæðan fyrir því að við erum að ræða þetta undir þeim lið er að ríkisstjórninni hefur ekki tekist að rökstyðja það á nokkurn einasta hátt þannig að nokkur maður geti skilið það af hverju hún ætti að sitja áfram. Hún hefur viðurkennt að umboð hennar hafi runnið sitt skeið á enda. Hún er að hrökklast frá. Hún ætlar að stytta kjörtímabilið. (Gripið fram í.) Hún er að hrökklast frá völdum. Er það della?

Hæstv. fjármálaráðherra. Er það della? Er hún ekki að hrökklast frá völdum? (Gripið fram í.)Hvað er hún að gera? Af hverju er hún þá að fara frá? Eru það mistök? Voru það orð sögð í óðagoti, sem féllu í hringiðu atburðarásarinnar?

Alls ekki. Hún er að hrökklast frá. Við erum stödd í miðju bílslysi sem sýnt er hægt og hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki gera sér grein fyrir því að trúverðugleikinn er enginn, (Forseti hringir.) traustið er farið og það er ekkert í verkefnaskránni sem við höfum séð sem réttlætir það að hún sitji áfram.