145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Panama-skjölin og afleiðingar þeirra.

[10:42]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Að menn skuli halda það hér á ráðherrabekkjunum að það sé í lagi að byrja þennan dag eins og hvern annan þingdag segir svo mikið. Það segir okkur þá sögu að mönnum finnst þetta allt í lagi, mönnum finnst sú staða sem afhjúpuð hefur verið með Panama-skjölunum ekki þess virði að eyða tíma þingsins í að taka raunverulega á því. (Gripið fram í: … sérstaka umræðu í það.)

Menn gætu stigið til hliðar og sagt: Heyrðu, það verður kosið strax vegna þess að hér hefur orðið trúnaðarrof og við þurfum öll endurnýjað umboð. En þeir hafa kosið að gera það ekki. Plan B væri hugsanlega að reyna að eyða núna öllum kröftum þingsins í að girða fyrir að svona lagað geti nokkurn tímann gerst aftur. Eru menn að því? Nei, nei, menn eru bara með öll nefndastörf í hægagangi og í einhverju svona kaffispjalli eins og ekkert hafi í skorist. Það er vegna þess að þeim stendur á sama. Svona vilja þeir hafa þetta. Það opinberast hér.