145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Panama-skjölin og afleiðingar þeirra.

[10:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hefði talið að sú atburðarás sem við höfum orðið vitni að síðustu vikur, sá áþreifanlegi vitnisburður sem við höfum orðið vitni að um mál sem voru okkur auðvitað kunnug úr rannsóknarskýrslu Alþingis, sem birtist okkur nú með áþreifanlegum hætti hefði kallað á sterkari viðbrögð. Það er enn þá skoðun mín að eðlilegt hefði verið að boða til kosninga í vor. En ríkisstjórnin felldi þá tillögu, eða stjórnarmeirihlutinn, með 37 atkvæðum eins og kunnugt er, og ákvað að boða til kosninga í haust á þeim forsendum að hér væru brýn mál sem þyrfti að ljúka. Að sjálfsögðu furðum við okkur á því þegar síðan er birtur listi 77 mála (Gripið fram í: Stuttur listi.) um timburvörur og ýmis önnur mjög brýn mál, sem ríkisstjórnin telur þjóðhagslega mjög brýn og enginn annar geti leyst en hún. Að sjálfsögðu halda þau rök ekki vatni, en ég tek undir (Forseti hringir.) með nöfnu minni, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, þegar hún segir: (Forseti hringir.) Þá reynir á þingið að nota tímann einmitt til að fást (Forseti hringir.) við aflandsfélögin með raunhæfum hætti.