145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Panama-skjölin og afleiðingar þeirra.

[10:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Undanfarna daga hafa haldið áfram að hellast yfir þjóðina hneykslismál varðandi Panama-skjölin sem beinir óhjákvæmilega spjótum sínum að sitjandi ráðherrum í ríkisstjórninni, hæstv. fjármálaráðherra og innanríkisráðherra, með aðkomu þeirra að Panama-skjölunum. Margir eru búnir að segja af sér vegna aðkomu sinnar að aflandsfélögum, vegna algerlega sambærilegrar aðkomu að aflandsfélögum og sitjandi ráðherrar hafa. En sitjandi ráðherrar telja það ekki koma sér neitt við. Meira að segja stígur framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins til hliðar. Hæstv. forsætisráðherra segir að hann hafi svo sem ekkert brotið af sér en hann vilji ekki kasta rýrð á Framsóknarflokkinn. Framsóknarflokkurinn er auðvitað það stór og merkileg stofnun að framkvæmdastjórinn stígur til hliðar. En hæstv. fjármálaráðherra og innanríkisráðherra, (Forseti hringir.) ætla þeir að kasta rýrð á Alþingi, löggjafann, með því að sitja sem fastast? Ég spyr, og spyr hæstv. forsætisráðherra: Er það eðlilegt?