145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Panama-skjölin og afleiðingar þeirra.

[10:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Allt sem er að í íslenskri pólitík kristallaðist ágætlega í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur áðan. Þegar svona trúnaðarbrestur hefur orðið, eins og hér varð og hefur verið opinberaður í gegnum Panama-skjölin þar sem hluti þjóðarinnar, elíta, hefur sogað fjármuni út úr íslensku efnahagskerfi og þar á meðal ráðherrar í þessari ríkisstjórn, er eðlilegt að við sem hér sitjum spyrjum okkur: Hvernig getum við endurreist það traust sem þarf að vera á þessari stofnun?

Í staðinn ákveða hv. þingmaður og þessi ríkisstjórn að setja upp boxhanskana og slá til baka (Gripið fram í: Bara lið?) á meðan við hin reynum að spyrja: Getum við í sameiningu fundið flöt á því að endurbyggja traust á þessari stofnun aftur? Það er best gert með kosningum, með samtali við þjóðina um leiðina fram á við.

Nei, þessi ríkisstjórn ætlar sko að verjast, það þarf að verja völdin. (Forseti hringir.) Þetta er ekki leiðin, virðulegi forseti, og það er þetta sem við erum að ræða um.