145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

málefni skattaskjóla.

[11:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Málefni skattaskjóla eru eðlilega ofarlega á baugi og mjög mikilvægt að Ísland skipi sér í fremstu röð ríkja í baráttu gegn skattaskjólum. Vandi okkar er sá að ríkisstjórnin hefur verið mjög loðin, svo ekki sé meira sagt, í svörum um viðhorf sín til þessara mála og ekki treyst sér til að lýsa því yfir að eign í skattaskjólum sé óásættanleg, sé samfélagslega skaðleg með ótvíræðum hætti. Nú kom hingað um síðustu helgi formaður PES, flokks evrópska jafnaðarmanna, Sergei Stanishev, fyrrverandi forsætisráðherra Búlgaríu, og hélt erindi um stefnumörkun evrópska jafnaðarmannaflokksins, sem hefur verið gefin út í 12 punktum, um aðgerðir gegn skattaskjólum. Þær fela meðal annars í sér að gerðir verði upplýsingasamningar milli Evrópusambandsríkja og allra ríkja sem hafa gengist undir kvaðir OECD um upplýsingaskipti um skatta- og fjárhagsmálefni og að þau ríki verði beitt þvingunum sem ekki eru tilbúin til að gangast undir slíka samninga og kvaðir. Þá er lagt til að skylda fjármálafyrirtæki til að skila upplýsingum til skattyfirvalda um reikninga í ríkjum utan Evrópusambandsins sem ekki eru tilbúin að gangast undir slíkar kvaðir eða samninga og að efla gagnsæi og upplýsingagjöf um félög sem skráð eru utan Evrópusambandsins en starfa innan þess, svo sem hverjir eru raunverulegir eigendur. Þá eru lagðar til aðgerðir varðandi fjölþjóðleg fyrirtæki sem starfa innan Evrópuambandsins, að þau þurfi að gefa upp allar tekjur til skatts, og að styrkt verði refsilöggjöf varðandi aðstoð banka við skattundanskot, en við höfum séð í umfjöllun hérlendis að það eru íslenskir bankar sem (Forseti hringir.) hafa stutt þá starfsemi.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er hann tilbúinn að taka undir stefnumörkun (Forseti hringir.) að þessum toga? Er hann tilbúinn til að vinna með okkur (Forseti hringir.) að því að Ísland verði í fararbroddi í baráttu (Forseti hringir.) fyrir þessum mikilvægu markmiðum?