145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

málefni skattaskjóla.

[11:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ísland er í fararbroddi í þeirri baráttu sem nú stendur yfir til að afhjúpa leyndina í skattaskjólum, komast að upplýsingunum með því að við höfum einmitt gert slíka upplýsingaskiptasamninga og hv. þingmaður talar hér um. Við höfum tekið upp nýjustu staðla OECD og við erum í hópi þeirra þjóða sem fyrst innleiða þá. Við höfum þess utan keypt gögn, varið tugum milljóna til að kaupa gögn til að komast frekar á snoðir um það hverjir svíkja undan, hverjir skila ekki sínu. Það er ágætt að hér komi fram, vegna þess að mér finnst eins og margir þingmenn séu ekki upplýstir um það, að skattyfirvöld hafa heimildir til að fá upplýsingar úr fjármálakerfinu og hafa nú þegar gert það.

Hv. þingmaður segir að stjórnarflokkarnir séu eitthvað tregir að taka þátt í þessari baráttu. Það er alrangt. Það er eitt sem ég held að hv. þingmaður átti sig ekki alveg á, það er að með því að gera upplýsingaskiptasamninga, með því að fara þá leiðina, viðurkenna menn tilvist aflandseyja, viðurkenna þeir viðskipti sem þar eiga sér stað. Og þegar menn fara til ríkisskattstjóra, taka þar upp eyðublað sem liggur uppi í hillu, fylla það út og standa skil á sínu með þeim hætti sem hv. þingmaður samþykkti með sérstakri CFC-löggjöf eru menn — eins og ég studdi svo sem líka, bara þannig að það sé á hreinu, ef menn eru eitthvað að hrista hausinn yfir því — þegar menn gera þetta, þegar menn standa skil á sínu í samræmi við íslensk lög, fylla út þau eyðublöð sem þeim ber að gera í íslenskum stofnunum, finnst mér ekki eðlilegt að menn komi hér upp og segi: Þetta er fólkið, þetta er fólkið sem við ætlum að koma á fót sérstakri rannsóknarnefnd um á Alþingi og telja upp og birta opinberlega nöfn þess. Það er tillaga Vinstri grænna.

Ég held að málið sé einmitt það sem fram kom á ágætum fundi Samfylkingarinnar í síðustu viku, samkvæmt því sem ég sá í fréttum, að við verðum að gera grundvallarmun á þeim sem svíkja undan og stela, skila ekki sínu, peningaþvætti og skattsvikum annars vegar (Forseti hringir.) og hins vegar leiðinni sem við eigum að fara til að lágmarka ávinning af því að fara þá leið. (Forseti hringir.) Við verðum að gera mun á því og svo þeim sem mæta til ríkisskattstjóra og gera grein fyrir sínu. (Forseti hringir.) Þetta er það sem mér finnst að margir þingmenn í þessum þingsal hafi ekki enn getað gert.