145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

málefni skattaskjóla.

[11:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tók þátt í því að samþykkja lög um CFC-löggjöf. Það var til þess að afla ríkinu möguleika á tekjum af eignum sem voru faldar í aflandsfélögum. (Gripið fram í: Nei.) Það sem felst hins vegar ekki í því er almenn viðurkenning á því að gott sé eða jákvætt að eiga eignir í aflandsfélögum. Þar finnst mér ríkisstjórnin draga lappirnar. Ríkisskattstjóri sjálfur og yfirskattanefnd hefur staðfest það og segir að það séu einungis tvenns konar ástæður sem geti legið að baki eignarhaldi á aflandsfélögum, þ.e. vilji til þess að forðast skattgreiðslur eða til þess að leyna eignarhaldi. Af því má leiða að hver sá sem stofnar til slíkra félaga þurfi að útskýra hvort af því tvennu hann hafði í huga þegar ásetningur var fyrir hendi um að stofna félögin. Um það snýst vandamálið, um það snýst (Forseti hringir.) trúverðugleikavandi hæstv. fjármálaráðherra sjálfs og um það snýst skortur ríkisstjórnarinnar á skýrum línum í því efni.