145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

upplýsingar um aflandsfélög og aflandskrónur.

[11:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér er farið að þykja þetta dálítið einkennilegt. Það er eins og fólki líði illa með að hafa stutt þessa CFC-löggjöf, að mönnum líði illa með að hafa sett hér sérstök lög og reglur, gefið fólki leiðbeiningar um hvernig það ætti að gera grein fyrir sínu og hvernig það yrði skattlagt vegna þess að í kjölfarið, í dag eftir fram komin skjöl þá koma menn og segja: Nei, nei, nei, baráttan snýst ekkert um það að menn eigi að skila sínu, baráttan snýst ekkert um að afhjúpa leyndina, baráttan snýst ekkert um peningaþvætti og skattsvik. Nei, baráttan snýst um að berjast gegn þessu. Bíddu — hvers vegna þá að semja CFC-löggjöf sem viðurkennir starfsemi á þessum svæðum? Af hverju lögðu menn ekki einfaldlega fram frumvarp á þeim tíma? Hvers vegna eru menn á vettvangi OECD að gera upplýsingaskiptasamninga við þessi lönd? Hvers vegna að gera samninga við þá sem menn vilja ekki horfa til? Menn eru algerlega komnir út í horn í röksemdafærslu sinni. Menn gera ekki samninga við þá sem þeir ætla að afneita. Það getur ekki verið. Menn eru algerlega komnir í heilan hring.

Þetta dregur fram það sem kom svo ágætlega fram á ráðstefnu Samfylkingarinnar og ég tók eftir í fréttum að það sem öllu skiptir í þessum málum er að beina sjónum sínum að peningaþvættinu, að skattsvikunum og leyndinni. Svo geta einstök ríki farið þá leið sem við Íslendingar höfum gert líka því til viðbótar og afnumið allan ávinninginn, skattalega ávinninginn, eða bróðurpart hans því til viðbótar. Vilji menn hins vegar fara hina leiðina þá skulum við bara hætta að gera upplýsingaskiptasamninga. Það verður væntanlega til lítils vegna þess að því fylgir að menn byggja á því að þessi tilvist geti verið til staðar og verði með einhverjum hætti skattlögð hér. Þannig eru reglurnar. Þetta er algjör kúvending í málflutningi.

Varðandi einstaka eigendur tel ég að skattastofnanir, skattrannsóknarstjóri og ríkisskattstjóri hafi tækifæri (Forseti hringir.) til þess að fá þau gögn sem um ræðir og eftir atvikum (Forseti hringir.) að leggja mat á það hvort það (Forseti hringir.) kalli og gefi tilefni til þess að fara í einhverjar frekari rannsóknir.