145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.

[11:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Mér þykir auðvitað mjög leitt að geta ekki komið hingað upp og lýst fullu trausti á Bjarta framtíð og Vinstri græna til þess að ljúka málum ríkisstjórnarinnar eða koma fram með sambærileg mál og leiða þau til lykta. Ég er ekki að fara að gera það.

Þegar við vísum í það að við ætlum að ljúka okkar málum þá erum við að vísa í allan þann málafjölda sem hefur komið fram frá því þing var sett í september, öll þau mannsár sem hafa farið í að vinna að þeim málum í nefndum þingsins. Við erum að vísa í þann lista sem stjórnarandstaðan ýmist segir að sé skammarlega stuttur eða óraunhæft langur. Á þeim lista eru mál sem þingmenn hafa eflaust ólíkar skoðanir á. Við teljum þetta vera mikilvæg framfaramál. Má ég nefna númer eitt, afnám gjaldeyrishafta. Má ég nefna númer tvö, að fara yfir fimm ára efnahagsáætlun og setja landinu, Íslandi, í samræmi við lög um opinber fjármál fjármálastefnu til næstu ára og taka umræðu um það í þinginu. Má ég nefna mál sem snerta almannatryggingar, heilbrigðismál og fjölmarga slíka þætti, jafnvel íslenska námsmenn. Við getum farið víðar yfir sviðið ef menn vilja, en ég er bara að vísa í listann. Ég geri ekki ráð fyrir að þingmenn verði allir sammála. Það getur hver sem er stigið upp í þessa pontu og lýst frati á þetta allt saman, en þá kemur einfaldlega í ljós í atkvæðagreiðslu hvort það er ekki svo að á bak við flest þessara mála er bara sterkur meiri hluti. Menn grípa oft til þess að segja eitthvað vera andlýðræðislegt o.s.frv. Það er ekkert lýðræðislegra en það að leyfa þinginu að starfa í samræmi við lög og stjórnarskrá til að leiða fram þingviljann. Mikið hlakka ég síðan til að ganga til fundar við kjósendur og leggja þann gríðarlega árangur á borðið sem ríkisstjórnin hefur náð á þessum þingvetri og fyrri árum.