145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:27]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Þessi 70 mála málaskrá sem hér liggur fyrir, sem hæstv. fjármálaráðherra er búinn að segja að ríkisstjórnin verði einfaldlega að klára, fjallar meðal annars um ný lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna, en frumvarpið hefur ekki enn komið fyrir þingið og ekki heldur frumvarp um almannatryggingar sem einnig er þarna. Ég skil ekki alveg að það sé mikilvægt að klára öll þessi mál til að við getum gengið strax til kosninga. Hvert er eiginlega málið? Eftir hverjum bíðum við eiginlega? Hvernig er það mögulegt fyrir okkar litla þing, sem telur bara 63 þingmenn, að klára öll þessi mál? Ég sé ekki hvernig við eigum að hafa tíma til að ræða þessi mál og gera það almennilega.

Það er spurning hversu raunhæft þetta allt saman er og hvort hæstv. forsætisráðherra mun standa við stóru orðin þegar þar að kemur. Eða mun einhver önnur afsökun koma í staðinn?