145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

afhending gagna viðskiptabanka til ríkisskattstjóra.

[11:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Þær upplýsingar sem hv. þingmaður vísar til sem kunna að vera í íslenska fjármálakerfinu, væntanlega í flestum tilvikum í eldri bankastofnuninni eða gætu svo sem verið í einhverjum tilvikum hjá nýrri bankastofnuninni, standa skattyfirvöldum til reiðu samkvæmt lögum. Skattrannsóknarstjóri hefur farið fram á afhendingu gagna samkvæmt eigin mati eftir þörfum. Skattrannsóknarstjóri hefur fengið þau gögn til rannsóknar. Þau gögn hafa orðið skattrannsóknarstjóra, eftir atvikum í einstökum málum, tilefni til að grípa til einhverra aðgerða. Um þetta verður fjallað meðal annars í svari sem er verið að undirbúa við fyrirspurn sem mér hefur borist. Ég held því ekki að þörf sé á neinu frumkvæði mínu í því efni. Það sem ég hef hins vegar gert er að ég hef leitað eftir því, bæði hjá ríkisskattstjóra og hjá skattrannsóknarstjóra, hvort það sé eitthvað sérstakt í lögum eða reglum, fjárveitingum, sem á þarf að halda til að embættin geti sinnt hlutverki sínu betur og brugðist sérstaklega við fram komnum gögnum. Í því efni hafa komið fram sjónarmið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd þingsins og ég hyggst grípa til sérstakra ráðstafana til að tryggja að fyllt verði upp í allar sprungur, allar holur sem hugsanlega kunna að vera, þannig að við þurfum ekki að vera í nokkrum einasta vafa um að þær stofnanir sem við höfum komið á fót séu fullburðugar og með allar þær heimildir sem á þarf að halda til að sinna verkefnum sínum.

Varðandi fyrirspurnina eru það mínar upplýsingar að þessar upplýsingar hafi nú þegar verið fengnar. Ég veit ekki nákvæmlega í hvaða formi eða hversu umfangsmikið það er en eftir því sem ég best veit hafa svör borist úr fjármálakerfinu við fyrirspurnum í samræmi við efni þeirra.