145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

afhending gagna viðskiptabanka til ríkisskattstjóra.

[11:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Af hverju vill fjármálaráðherra ekki fylgja hinu norska fordæmi og hafa frumkvæði að því að bankar í eigu ríkisins afhendi allar upplýsingar um þessi efni? Löglegt, segir hæstv. fjármálaráðherra. Þið berið ábyrgð á því. Þið samþykktuð CFC-löggjöfina.

Virðulegi forseti. Löglegt en siðlaust. (Gripið fram í.)Það hefur lengi verið afstaða stjórnarráðsins að það væri vafa undirorpið að við vegna alþjóðlegra skuldbindinga og samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gætum bannað mönnum að eiga eignir á aflandseyjum. Eftir yfirlýsingu forsætisráðherra þess efnis á dögunum kom hins vegar tímamótayfirlýsing frá ESA um að Íslandi væri ekkert í veginum fyrir því að banna í innlendri löggjöf Íslendingum að eiga eignir á aflandseyjum. Þetta, virðulegur forseti, er algerlega ný staða.

Ég spyr fjármálaráðherra: Er hann tilbúinn til að fylgja eftir yfirlýsingum ESA og banna einfaldlega það (Forseti hringir.) athæfi sem ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd hafa lýst yfir að er aldrei í neinum (Forseti hringir.) heiðarlegum tilgangi gert?