145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

afhending gagna viðskiptabanka til ríkisskattstjóra.

[11:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Spurt er hvers vegna ég vilji ekki hafa eitthvert frumkvæði. Það eru stofnanirnar sem hafa haft frumkvæðið og ef ég sé tilefni til að grípa til sérstakra viðbótarráðstafana mun ég ekki láta bíða eftir mér í því. En það er þegar fram komið að stofnanirnar hafa haft frumkvæðið og sinna skyldu sinni. Ég kalla eftir því að þingmenn láti skína í lágmarkstraust gagnvart þessum stofnunum. Mér finnst umræðan einatt lýsa miklu vantrausti á að þær stofnanir sem um ræðir geti og muni sinna lögboðnu hlutverki sínu. Ég treysti stofnunum fullkomlega. Ég treysti líka því mati ríkisskattstjóra sem fram kom í þingnefnd að það kunni að orka tvímælis að fara þá leið sem hv. þingmaður segir, að einfaldlega banna. Það er ekki alltaf leiðin að banna með lögum. Menn geta farið hjáleiðir, eins og við þekkjum, og hefur þegar komið fram. Við erum (Forseti hringir.) nú þegar með í lögum bann við skattsvikum, ekki satt? Við erum með bann við skattsvikum en samt erum við með skattrannsóknarstjóra til að uppræta skattsvik. Við erum með hegningarlög sem banna hitt og þetta en samt eru framin brot hér og hvar.

Það er ekki alltaf leiðin (Forseti hringir.) að fara bannleiðina. En sérhver leið sem eykur (Forseti hringir.) líkurnar á því að við náum meiri árangri í því að uppræta peningaþvætti og skattsvik er leið sem ég mun styðja.