145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:37]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ekki að furða að tortryggni sé ríkjandi í samfélaginu og traust á stjórnmálunum sé á undanhaldi þegar svo einföld spurning sem sú hvenær verði kosið og hver séu þessi miklu forgangsmál er eitthvað sem vex þessari nýju ríkisstjórn hreins borðs í stjórnmálum svo mikið í augum að henni er algerlega fyrirmunað að tala skýrt í þeim efnum. Þegar fjármálaráðherra er að svara stjórnarandstöðunni, bæði í fundarstjórn forseta og í fyrirspurnatíma, heyrist gjammað hér af bekkjum að það eigi að kjósa í apríl 2017. Og hver er það? Það er þingmaður Framsóknarflokksins sem er í forsætisnefnd. Það er þingmaður Framsóknarflokksins í forsætisnefnd sem telur það vera til þess að lyfta stemningunni að gefa í skyn, með réttu eða röngu, að ekki standi til að efna loforð fjármálaráðherra og forsætisráðherra um kosningar í haust. (Forseti hringir.) Er það furða þó að við köllum eftir því, forseti, að hér sé talað skýrar og það liggi algerlega fyrir hver áformin eru?