145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Fjaðrirnar fjúka af þessari ríkisstjórn hver af annarri og eru nú ekki orðnar margar eftir. Samt tala hv. þingmenn þannig að þessi ríkisstjórn og verkefni hennar séu svo mikilvæg og það gangi bara ekki upp annað en að hún fái að ljúka sínum verkefnalista. Þessu trúir auðvitað enginn heilvita maður nema kannski — ég efast um að hv. þingmenn í meiri hlutanum trúi þessu sjálfir. En þetta er keyrt áfram. Og talandi um trúverðugleika: Þegar hv. þingmenn í stjórnarmeirihlutanum eru sífellt að kalla fram í að það eigi bara að kjósa næsta vor, hvernig í ósköpunum er þá hægt að treysta að menn ætli að standa við það að kjósa í haust eins og hæstv. ráðherrar hafa gefið út? Það er ekki traust ríkjandi þegar skilaboðin eru svona þvers og kruss í þessum málum. Það ríkir bara ekkert traust í þessum efnum. Því er heldur ekkert að treysta að undir stjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins fari fram rannsókn á skattaskjólum, aflandsfélögum og aðkomu (Forseti hringir.) Íslendinga að þeim málum. Það treystir ekki nokkur einasti maður því að þessi ríkisstjórn sé þess umkomin að bera ábyrgð (Forseti hringir.) á slíkri rannsókn. Það þarf sjálfstæða, opinbera rannsókn en ekki undir stjórn þeirra aðila sem hafa haft mikla aðkomu að þessum málum sjálfir.