145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Mér finnst mikilvægt í þessu samtali að við vörpum fram fleiri spurningum sem lúta að kjördeginum. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hafin sé vinna sem lýtur að lagabreytingum á þingskapalögum og kosningalögum sem til koma, vegna þess að augljóslega mun þetta nýja þing verða seinna á ferð en ber samkvæmt lögum og fjárlagafrumvarp, samkvæmt því sem forseti segir okkur, verða lagt fram í október. Er þessi undirbúningur hafinn? Og auk þess vil ég spyrja forseta hvort undirbúningur sé hafinn varðandi kjósendur erlendis sem þurfa þá að kæra sig inn á kjörskrá, það þarf að láta vita hvenær kjörskrá opnar o.s.frv., sums staðar er um að ræða langa fresti sem fólk þarf að vita nákvæmlega hvernig eru, sendiráð okkar og ræðisskrifstofur úti um allan heim þurfa að undirbúa kosningar. Þetta er fordæmalaus tími, við erum að tala um að kjósa hér utan (Forseti hringir.) hefðbundins tíma í fyrsta skipti frá haustinu 1979. (Forseti hringir.) Ég spyr hvort forseti og skrifstofa Alþingis sé farin að undirbúa þær breytingar sem þarf að gera á umbúnaði.