145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:56]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Ég sagði áðan undir þessum lið að ríkisstjórnin væri að hrökklast frá völdum. Þá mótmælti hæstv. forsætisráðherra því.

Ég velti fyrir mér eftir þau orðaskipti sem ég átti við hann úr þessum ræðustól hver sé eiginlega skilningur Sjálfstæðisflokksins á því af hverju það eigi að kjósa í haust. Af hverju komst ríkisstjórnin að þeirri niðurstöðu? Hver er söguskýringin ef hún er ekki sú að í kjölfar fjölmennustu mótmæla Íslandssögunnar sé ríkisstjórnin að hrökklast frá völdum?

Í annan stað vil ég segja að auðvitað er búið að skrifa ræðurnar sem verða fluttar í haust af talsmönnum ríkisstjórnarinnar og búið að hanna þá atburðarás. Það verður að sjálfsögðu stjórnarandstöðunni að kenna af hverju menn þurfa að fresta kosningum fram á vor. Það verður vegna þess að stjórnarandstaðan var ekki tilbúin til þess að vinna að þeim fjölmörgu góðu málum sem ríkisstjórnin þurfti að klára fyrir kosningarnar.

Þetta er svo fyrirsjáanlegt sem frekast getur orðið. Það þarf ekki annað en að setja fram eitthvert (Forseti hringir.) afspyrnuvont mál, t.d. að eyðileggja Lánasjóð íslenskra námsmanna, láta stjórnarandstöðuna böðlast hérna og þá geta menn haldið áfram fram á vor 2017. Það er atburðarásin sem menn hafa hannað hérna og eru búnir að sjá fyrir sér.