145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:58]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hinn illi grunur í þessu máli er nákvæmlega sá sem hv. þingmaður Róbert Marshall kom inn á rétt í þessu. Svo virðist sem verið sé að hanna atburðarás til þess að ríkisstjórnin geti hengt kosningasvik sín, svikin við loforðið um kosningar í haust, á stjórnarandstöðuna. Það er leikritið sem verið er að hanna. Það er því miður ástæðan, að því er virðist, fyrir því að ekki er hægt að gefa upp dagsetningu og menn eru á harðahlaupum undan loforði sem aldrei var gefið stjórnarandstöðunni, takið eftir því, það var gefið almenningi. Það var gefið almenningi og það er gagnvart almenningi sem ríkisstjórnin þarf að standa við það loforð fyrst og fremst. Hlutverk stjórnarandstöðunnar er auðvitað að knýja á um að staðið verði við orðin. Ríkisstjórnin er að reyna að flýja hinn óumflýjanleg dóm kjósenda (Forseti hringir.) þessa lands yfir vanhæfinu og spillingunni sem nú hefur komið í ljós innan raða ríkisstjórnarinnar þar sem þriðjungurinn tengist eða tengdist fyrir fáeinum vikum aflandsfélögum og skattaskjólum. Það er staðreynd. Það er það sem menn eru að reyna að forðast núna.