145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Þetta er auðvitað alveg makalaus málflutningur að hlusta á. Algjörlega makalaus. Það er með ólíkindum að þetta fólk telji það vera til framdráttar sjálfu sér í pólitík og Alþingi að viðhafa svona málflutning, óheiðarlegan fram úr hófi, (Gripið fram í.) eins og þeirra er nú von og vísa svo sem, og með mikilli vanvirðingu fyrir þingið og störfin hér.

En ætli það geti verið að hv. þm. Róbert Marshall hafi hitt naglann svolítið á höfuðið áðan þegar hann var undir rós farinn að hóta okkur því að það mál sem er að koma fram um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna færi ekki í gegn, það væri málið sem við ætluðum að kenna stjórnarandstöðunni um í haust?

Í þessu felst auðvitað sú dulbúna hótun og beina hótun sem hér hefur ítrekað komið fram í málflutningi hv. þingmanna minni hlutans á þingi að þeir ætli ekki að hleypa neinum málum í gegn. Sum þeirra hafa gengið svo langt að segja: Við hleypum engum málum í gegn. Það verður engin umræða hér.

Þau eru að sýna það með verkum sínum, þessir einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hér eru í þingsal núna til að halda þessu málþófi uppi. (Forseti hringir.) Bullandi málþófi, mjög ósmekklegu og ómálefnalegu. En það gæti kannski verið einmitt ástæðan, þessi dulbúna hótun. Þau ætla ekki að hleypa neinu áfram.

(Forseti hringir.) Ætlum við að fara í kosningar við þær aðstæður að svo ómálefnaleg og ódrengileg umræða eigi sér stað til að halda þinginu í gíslingu? (Forseti hringir.)Nei við látum ekki stilla okkur upp við vegg. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Við höfum lofað kjósendum því að það verði kosið í haust, en það byggir auðvitað á því að þingið hefji málefnalega vinnu (Gripið fram í.) og komi sér að störfum.