145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[12:05]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég má nú til með að standa upp vegna þessarar orrahríðar sem staðið hefur hérna í einn og hálfan klukkutíma. Ég verð að segja eins og er að ég tek undir með þjóðinni og mér er misboðið hvernig þingmenn eyða tíma þingsins í tilefnislaust röfl um það sem búið er að tala um í nokkrar vikur á þinginu. Það er búið að segja að það eigi að kjósa í haust. Það verður auðvitað staðið við það. (LRM: Hvað margir ætla að standa við það?) Ég hugsa bara að allir ætli að gera það. (Gripið fram í.) En ætli vantraustið sé ekki líka gagnkvæmt, þegar menn vilja ekki minnast á hvaða dagur það er vegna þess að þá verður nú fyrst tekið í handbremsuna og ekkert gengur. Ég held að við þurfum öll að líta í eigin barm og horfa til þess að við þurfum að ljúka þeim störfum sem við ætlum að gera, hvert og eitt, og láta störf þingsins ganga þannig að hægt verði að boða til kosninga í haust, í lok október eins og talað hefur verið um, og standa við það. Hluti af því að standa við það er að minni hlutinn taki þátt í því líka. (Forseti hringir.) (LRM: Klára öll góðu málin hjá ríkisstjórninni.) Já, (LRM: 76 mál.) ekki að eyða tímanum í þessa vitleysu.