145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[12:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og fagna sérstaklega þessu frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er eitt af þeim mikilvægu málum sem við þurfum að klára. Hv. fjárlaganefnd hefur tekið þetta upp allt kjörtímabilið og fylgt því eftir að farið sé eftir lögum um opinber innkaup, en mikill misbrestur er á því. Hafa sumir fjölmiðlar birt vandaða umfjöllun um það og ber þá Kastljós hæst, en svo sannarlega hefur Morgunblaðið, og sömuleiðis ýmsir aðrir fjölmiðlar, vakið athygli á þessu.

Af hverju skiptir máli að farið sé eftir lögum um opinber innkaup og vara og þjónusta sé boðin út? Það eru margar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi eigum við að fara vel með skattfé almennings. Það eru engin málefnaleg rök fyrir því að bjóða ekki út innkaup á vöru og þjónustu. Það eru fjölmörg dæmi um að stofnanir hafi sparað verulega fjármuni með því að fara þá leið. Það er í rauninni óskiljanlegt að þetta hafi ekki verið almenn regla.

Ég er mjög ánægður með hvernig hæstv. fjármálaráðherra hefur tekið á þessum málum. Hann hefur skipað sérstakan hóp þar sem aðilar fyrir utan ríkiskerfið, sem eru vanir því að kaupa inn á einkamarkaði, hafa komið fram með góðar úttektir og sömuleiðis tillögur um úrbætur. Ég geri ráð fyrir því að þær úrbætur séu í frumvarpinu. Sömuleiðis hefur hæstv. fjármálaráðherra sett af stað sérstaka vinnu sem hann var að vísa í vegna þess að kerfið hefur ekki verið að virka eins og það á að virka. Við höfum séð þar, og hæstv. ráðherra nefndi það í ræðu sinni, gríðarlegan sparnað á hlutum eins og tölvum og pappír og öðru slíku, sem er að langstærstum hluta samkynja vara sem á sjálfsögðu að bjóða út.

En við erum í þeirri sérkennilegu stöðu, virðulegi forseti, að það vantar mjög mikið upp á að það sé almenn regla hjá opinberum stofnunum að bjóða út innkaup á algjörlega samkynja vörum, t.d. eins og rafmagni, símum, pappír, tölvum o.s.frv. Nú er ekki hægt að halda því fram að stofnunin Ríkiskaup sé ekki öll af vilja gerð eða hafi ekki áhuga á því. Ríkiskaup hefur meðal annars haldið stórar ráðstefnur um þessa hluti. Sama er með ráðuneytið, en það vantar upp á eftirfylgni með framkvæmdinni hjá opinberum stofnunum.

Ég ætla ekki að fara efnislega í umræðu um frumvarpið að öðru leyti en því að ég er ánægður með að það fyrsta sem hæstv. ráðherra nefnir er að þessi innkaup verði að vera rafræn. Það skrýtna er þegar menn fara að skoða málin að það vantar upplýsingar um innkaup ríkisins. Þannig ætti það auðvitað ekki að vera, en þannig er það nú. Við eigum að hafa það sem almenna reglu að öll opinber innkaup séu rafræn. Það hefur skilað miklum árangri hjá þeim þjóðum sem hafa farið þá leið. Sömuleiðis skiptir máli að einfalda kerfið. Það rammafyrirkomulag sem við höfum verið með, svo dæmi sé tekið, hefur ekki virkað sem skyldi og ein af ástæðunum er flækjustigið.

Það er líka þannig, virðulegi forseti, að þær opinberu stofnanir sem hafa hóað sig saman til þess að bjóða út innkaup á vörum hafa verið gerðar afturreka með það. Ég vona að þegar frumvarpið verður að lögum, og við verðum að láta það verða að lögum, verði það alveg skýrt, eins og hæstv. ráðherra nefndi, að stofnanir megi taka sig saman og bjóða út þætti eins og t.d. þá sem ég nefndi áðan.

Sömuleiðis er ég ánægður með að hér sé lögð áhersla á að gera litlum og meðalstórum fyrirtækjum kleift að vera virkir aðilar á þessum markaði. Þá er sérstaklega verið að vísa í samkeppnismálin. Við megum auðvitað ekki ganga þannig fram að láta einhverja stóra aðila, sama hverjir það eru, komast í eins konar einokunarstöðu út af stærð sinni. Það er nokkuð sem er þekkt í þessu umhverfi. Við þurfum að huga að því.

Hæstv. ráðherra nefndi lyfin. Þar höfum við stigið skref. Ég gerði það í tíð minni sem heilbrigðisráðherra að stíga skref í átt til þess að vinna betur með Norðurlöndunum að auknum innkaupum. Það var gengið frá lagabálki fyrir nokkrum missirum síðan en menn hafa nefnt að hann hafi ekki verið þannig úr garði gerður að hægt hefði verið að gera opinber innkaup með þeim hætti, þ.e. í samvinnu við aðra, t.d. erlenda spítala. Það kemur hins vegar fram ef menn skoða viðtöl í fjölmiðlum að t.d. forstjóri Ríkiskaupa, sem er væntanlega sá aðili sem þekkir þessu mál best, hefur nefnt að það sé víst hægt, en menn hafi ekki verið tilbúnir eða ekki farið í þá vinnu til þess að láta það verða að veruleika. Það voru hins vegar settir þar inn ákveðnir varnaglar, svipað og hæstv. ráðherra vísaði til, til að tryggja samkeppni. Það verður að tryggja að enginn einn aðili, sama hvort það er innan lands eða utan, komist í yfirburðastöðu og aðrir geti ekki keppt við hann. Það verður eðli máls samkvæmt að líta til þeirra þátta líka. Þegar kemur að lyfjum og slíkum vörum þurfum við einnig að hugsa um lyfjaöryggi landsmanna sem er gríðarlega mikilvægt. Ég ætti ekki að þurfa að rökstyðja það neitt frekar.

Í örstuttu máli, virðulegi forseti, þá vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma fram með þetta mál. Þetta er eitt af þeim málum sem við þurfum að klára. Okkur ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði með það ef hv. stjórnarandstöðuþingmenn eyða ekki öllum tíma þingsins í því að misnota liðinn fundarstjórn forseta. Eins og ég nefndi áðan erum við búin að setja Íslandsmet á þessu þingi í þeim lið. Þar kalla menn eftir því að verið sé að ræða um mál. Hér er mál komið fram. Hvar eru hv. stjórnarandstöðuþingmenn? Hvar eru þeir? (Gripið fram í: Farnir heim.) Það er einn hér. Einn hv. stjórnarandstöðuþingmaður. Maður mundi nú ætla það ef menn eru búnir að kalla eftir frumvörpum að þeir væru hér að ræða málin og hér væri troðfullur salur af stjórnarandstöðuþingmönnum. Svo er ekki. Þeir eru horfnir af vettvangi. En þeir misnota liðinn fundarstjórn forseta og fyrir daginn í dag var þetta 21 og hálfur tími, ætli það sé ekki komið núna í 24 tíma, 24 tíma í fundarstjórn forseta.

Virðulegi forseti. Það er ekkert að fundarstjórn forseta hér, enda er enginn að tala um hana. Þetta er auðvitað óþolandi málþóf og menn eru hreint og klárt að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar með því að ganga fram á löggjafarþinginu eins og gert hefur verið.

Það kemur örlítið á óvart að frumvarpið fari til hv. efnahags- og viðskiptanefndar en ekki hv. fjárlaganefndar. Það er kannski einhver hefð fyrir því, en hins vegar hefur byggst upp nokkur þekking í hv. fjárlaganefnd vegna þess að við höfum tekið fyrir þetta mál upp á okkar eigið eindæmi í tengslum við vinnu hagræðingarhópsins, vegna þess að mörg okkar vorum bæði í hagræðingarhópnum og í hv. fjárlaganefnd og við höfum reynt allt þetta kjörtímabil og munum halda áfram að reyna að finna leiðir til þess að nýta peninga skattgreiðenda betur. Þetta er besta og einfaldasta leiðin til þess. En aðalatriðið er að málið nái fram að ganga. Við í hv. fjárlaganefnd erum auðvitað tilbúin til þess að leggja okkar lóð á vogarskálarnar, því að hér er um þjóðþrifamál að ræða.

Ég sakna þess, virðulegi forseti, að sjá ekki neina hv. stjórnarandstöðuþingmenn að ræða þetta mikilvæga mál að undanskildum, virðulegi forseti, fyrir þá sem horfa á, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur sem er málefnalegur og góður þingmaður þótt við séum í grundvallaratriðum ósammála í stjórnmálum. Ég fagna því að hv. þingmaður sé hér, en það kemur mér á óvart miðað við þær ræður sem hafa verið haldnar að hv. stjórnarandstöðuþingmenn séu týndir og tröllum gefnir þegar verið er að kynna þetta þjóðþrifamál.