145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[12:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir góða ræðu um mikilvægi málsins. Það er staðreynd að það er, vil ég leyfa mér að segja, víða pottur brotinn í opinberum innkaupum.

Þetta eru krefjandi verkefni. Þau þurfa meiri athygli en þau hafa fengið. Ég ætla ekki að segja að þeim hafi ekki verið sinnt heldur höfum við kannski ekki fylgt nægjanlega vel þeim breytingum sem hafa orðið í tækni og í möguleikum okkar til að nýta upplýsingar til þess að gera betur. Um leið og við förum að gera það sjáum við að við getum bæði farið betur með skattfé og náð meiri árangri á fleiri sviðum, eins og ég hef aðeins komið inn á. Það er hægt að horfa til margra markmiða í opinberum innkaupum, þar sem verð hlýtur alltaf að vera stærsti faktorinn eða mjög ráðandi og drífandi þáttur, með því að breyta vinnubrögðum.

Nýlegu dæmin sem við höfum um tölvuinnkaupin, og reyndar ljósritunarpappírsinnkaup þar sem við buðum út 125 bretti af ljósritunarpappír, eru til vitnis um að ríkið hefur ekki verið að hámarka möguleika sína í innkaupum.

Hin hliðin á því er síðan sú að ríkið getur ekki komið fram í öllum málum sem einn risastór kaupandi sem kaupir allt í einu lagi og getur með slíkri framgöngu rústað markaðnum á Íslandi. Við erum ekki að tala um það. Við erum meira að tala um að menn skipuleggi sig, geri áætlanir um innkaup, horfi fram í tímann, safni saman kaupþörfinni og bjóði hana út.

Rafræna stjórnsýslan og rafrænu upplýsingarnar geta gegnt hér lykilhlutverki. Við sáum það í tölvuinnkaupunum að erfitt var að safna upplýsingum úr stjórnkerfinu um það sem keypt hafði verið. En niðurstaðan í tölvuinnkaupunum var sú að við fengum með því að bjóða út rúmlega 400 tölvur, sem er lítið hlutfall af heildartölvukaupum hins opinbera, 27% betra verð en best þekktist í stjórnkerfinu fyrir. Ef við hefðum borið það saman við nýleg dæmi um innkaupaverð á tölvum hefðum við fengið meira en helmingi lægra verð og í einhverjum tilvikum grunar mig að við höfum fengið tölvur í þessu útboði á 1/3 og jafnvel minna en 1/3 þess sem dæmi voru um að ríkið hafði greitt áður í einstökum stofnunum fyrir sambærilegar tölvur. Þannig að hér er mikið verk að vinna.

Þetta með að í vissum tilvikum sé hægt að skylda menn til þátttöku skiptir máli. Að opna betur heimildirnar til að taka þátt í alþjóðlegum innkaupum skiptir líka verulegu máli. Þetta með rafrænu innkaupin er verulega þýðingarmikið. Allar aðgerðir til að tryggja litlum og meðalstórum fyrirtækjum aðgang að viðskiptum við hið opinbera eru líka mjög mikilvæg skref.

Þetta mál er stútfullt af tímabærum breytingum sem við þurfum að ljúka á þessu þingi.