145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

631. mál
[12:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra kemur hér með mjög stórt mál og tók einmitt á ýmsum álitaefnum sem við verðum að ræða. Ég er þeirrar skoðunar, talandi um brýn mál sem við þurfum að klára fyrir kosningar, að það sé alveg lífsnauðsyn og algjört forgangsmál að lífeyrissjóðirnir fari að fjárfesta meira í útlöndum. Síðast þegar ég sá áttu þeir 3.200 milljarða og einungis 20% af þeim eru í erlendum eignum.

Fyrir þessari skoðun minni eru margar ástæður, í fyrsta lagi bara einföld áhættudreifing, við Íslendingar erum hér með okkar vinnu, heimili og flest það sem við eigum og við eigum ekki að hafa lífeyrisréttindi okkar í sömu körfu. Það þýðir ekki, eins og margir vilja túlka, að ég hafi vantrú á íslensku efnahagslífi eða íslenskri krónu. Það hefur ekkert með það að gera, það er langur vegur frá. Þetta er bara einföld áhættudreifing, ekki síst vegna þess sem Ásgeir Jónsson hagfræðingur og félagi hans hafa bent á í úttekt, þess augljósa að þegar við förum út í útgreiðslur í auknum mæli fjármögnum við að stórum hluta hluti sem við kaupum erlendis frá.

Þá komum við að ákveðnu fjármálalæsi. Það er mikilvægt að við upplýsum fólk sem á þessar eignir og að það sé meðvitað um að þetta er langtímafjárfesting. Það skiptir máli til langs tíma að ávöxtunin sé góð. Með fullri virðingu fyrir skammtímasveiflum snýst þetta um að við erum hér með fjárfestingar til áratuga. Þetta hangir allt saman við það sem hæstv. ráðherra nefndi varðandi samþjöppun í íslensku efnahagslífi og ruðningsáhrif stórra fjárfesta eins og lífeyrissjóða sem eru náttúrlega langstærstu fjárfestarnir. Þeir geta ekki annað. Þeir þurfa að fjárfesta núna um 200–300 milljarða á hverju ári og við erum að fara að breyta reglunum þannig að við setjum meiri fjármuni inn í lífeyrissjóðina og þetta verða ekki 200–300 milljarðar heldur meira. Þess vegna þurfum við að nýta þetta fyrirkomulag til að hjálpa ungu fólki að eignast húsnæði og við eigum að festa séreignarleiðina í sessi.

Ég er ánægður með að sjá frumkvæði frá ungu fólki. Ungur hagfræðinemi, Kristófer sem ég man ekki núna hvers son er, hefur skrifað um þetta á vefsíðunni romur.is. Það er mikilvægt að núna göngum við þannig fram að við festum þær hugmyndir sem þar koma fram með einhverjum hætti í sessi þannig að ungu fólki verði gert kleift að eignast húsnæði. Við erum að styrkja þetta kerfi í leiðinni.

Sömuleiðis liggur fyrir í hv. efnahags- og viðskiptanefnd frumvarp sem er búið að fá ágætisumfjöllun og ég er fyrsti flutningsmaður að. Það er byggt á frumvarpi sem hv. fyrrverandi þingmaður, vinur okkar Pétur Blöndal, skrifaði á sínum tíma um að skilgreina skýrt að lífeyrissjóðirnir eru eign sjóðfélaga og sjóðfélagarnir eiga að fá að koma beint að stjórnum þeirra. Það er mikilvægt að við opnum lífeyrissjóðina með þeim hætti að sjóðfélagar hafi betri og skýrari upplýsingar um hvaða verðmæti þeir eiga þar, hvaða eignir þeir eiga þar, og hafi þá sömuleiðis aðgang að stjórnum með einföldum hætti eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, að þeir kjósi alla stjórnina. Það væri hægt að fara þá millileið að þeir kysu hluta stjórnarmanna og við mundum vinna að því að efla fjármálalæsi sjóðfélaga með beinum hætti. Það verður ekki betur gert en að fólk fái að kjósa beint sína fulltrúa en þá þurfum við líka að tryggja og ýta undir það að sjóðfélagar nýti sér þessi réttindi og fylgist með því hvað er að gerast í þeirra lífeyrissjóði.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég er ánægður með að þetta frumvarp komi fram en hvet hv. þingnefnd til að skoða það í þessu samhengi. Það er forgangsmál að við klárum málið núna áður en við kjósum, tryggjum að lífeyrissjóðir geti fjárfest erlendis af augljósum ástæðum.