145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[13:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd níu ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á á IX. viðauka við EES-samninginn um að taka upp í samninginn nánar tilgreindar gerðir sem varða evrópskar reglur um fjármálaeftirlit og evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði. Jafnframt er leitað eftir heimild til að staðfesta samning um breytingu á samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls að því er varðar hlutverk og valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálaeftirlits.

Hér er um að ræða fyrsta hlutann af gerðum sem varða eftirlit með fjármálamörkuðum. Upptaka þeirra í EES-samninginn er forsenda áframhaldandi virkrar þátttöku EFTA-ríkjanna innan EES á innri markaðnum með fjármálaþjónustu. Gerðir sem varða þennan viðauka hafa hlaðist upp á undanförnum árum og nú bíða um 180 gerðir upptöku í þennan viðauka. Í fyrsta hlutanum er 31 gerð, þar af er með þessari þingsályktunartillögu leitað eftir heimild til að staðfesta upptöku 19 þeirra í samninginn. Það eru gerðir sem krefst lagabreytinga að innleiða í íslenska löggjöf.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mál sem unnið hefur verið að allt frá árinu 2012. Alþingi þekkir vel til undirbúnings þess, en utanríkismálanefnd hefur verið reglulega upplýst um framvindu málsins. Þá hefur verið gerð grein fyrir stöðu málsins í árlegum skýrslum utanríkisráðherra til þingsins um utanríkis- og alþjóðamál.

Tildrög þeirra reglna sem gerð er tillaga um að teknar verði upp í EES-samninginn má rekja til endurskoðunar innan Evrópusambandsins í kjölfar fjármálakreppunnar á tilhögun og umgjörð eftirlits með fjármálamörkuðum. Sú endurskoðun leiddi til þess að komið var á fót þremur nýjum eftirlitsstofnunum á evrópskum fjármálamarkaði. Þær tóku til starfa í ársbyrjun 2011 og eru hornsteinn þeirra umbóta sem komið var á í kjölfar kreppunnar. Þessar þrjár stofnanir eru: Evrópska bankaeftirlitsstofnunin, Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin og Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin. Þeim til viðbótar er starfrækt Evrópska kerfisáhætturáðið, en það fer þó ekki með heimildir til að taka ákvarðanir er binda aðila á markaði. Saman mynda þær með eftirlitsstjórnvöldum í aðildarríkjunum samræmt evrópskt eftirlitskerfi með fjármálamörkuðum.

Markmið kerfisins er að tryggja stöðugleika á fjármálamörkuðum, samræmda beitingu regluverks um fjármálastarfsemi á innri markaðnum og nánara samstarf fjármálaeftirlita aðildarríkjanna. Hinum samevrópsku stofnunum ber að vinna í nánu samstarfi við eftirlitsstofnanir í hverju ríki um sig, en ástæða er til að leggja á það áherslu að kerfið gerir ráð fyrir að daglegt eftirlit með fjármálafyrirtækjum og mörkuðum sé eftir sem áður í þeirra höndum. Með nokkurri einföldun má segja að samevrópsku stofnununum sé að meginstefnu ætlað að sinna hlutverki sínu með því að styðja við og styrkja stöðu eftirlitsstjórnvalda aðildarríkjanna á grundvelli tilmæla og ráðlegginga. Þegar annað er fullreynt er hins vegar í ákveðnum undantekningartilvikum gert ráð fyrir að samevrópsku stofnanirnar geti beitt sér, hver á sínu sviði, með bindandi hætti, bæði gagnvart eftirlitsstjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þar er bæði um að ræða ákveðnar rannsóknar- og viðurlagaheimildir. Þeim hefur reyndar aldrei verið beitt en eru svipaðs eðlis og á sviði samkeppnismála.

Þegar viðræður hófust um upptöku hins samræmda eftirlitskerfis í EES-samninginn á árinu 2012 var því strax ljóst að í ákveðnum tilvikum kynni að reyna á hvort eftirlitsheimildir hinna samevrópsku stofnana væru samþýðanlegar stjórnskipun okkar. Í álitsgerð tveggja lagaprófessora, Bjargar Thorarensen og Stefáns Más Stefánssonar, sem leitað var eftir af þessum sökum var ítarleg grein gerð fyrir þeim kröfum sem gera þyrfti til aðlögunar þessa kerfis innan EFTA-stoðar EES-samningsins ef unnt ætti að vera að innleiða það í íslenskan rétt með stjórnskipulega gildum hætti. Þar kom fram að aðlögun gerðanna mundi reyna mjög á þanþol stjórnarskrárinnar, en þó ætti að vera unnt að vinna að lausn málsins á grundvelli tveggja stoða kerfis EES-samningsins.

Þegar álitsgerð þeirra var unnin lá ekkert fyrir um með hvaða hætti umræddar gerðir yrðu aðlagaðar EES-samningnum. Í ljósi þessarar niðurstöðu var hins vegar af Íslands hálfu lögð á það höfuðáhersla að ná fram aðlögun sem byggðist á tveggja stoða kerfinu. Eftir langar og strangar viðræður gekk það á endanum eftir og var innsiglað á fundi fjármála- og efnahagsráðherra EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins 14. október 2014, þegar samþykkt var sameiginleg yfirlýsing um meginatriði við upptöku eftirlitskerfisins í EES-samninginn.

Samkomulagið byggist á tveggja stoða kerfi EES-samningsins og felur í sér að eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum er tryggður fullur aðgangur að hinu samræmda eftirlitskerfi sem starfrækt er á innri markaðnum. Jafnframt er tryggt að allar bindandi ákvarðanir gagnvart EFTA-ríkjunum innan EES, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA og að hægt verður að bera þær undir EFTA-dómstólinn. Þar er í báðum tilvikum um að ræða stofnanir sem starfræktar eru samkvæmt samningnum sem Ísland á aðild að. Hins vegar er litið svo á að hinum samevrópsku eftirlitsstofnunum verði heimilt að beina fyrirspurnum og tilmælum til aðila í EFTA-ríkjunum án þess að þær hafi bindandi áhrif. Í öllum tilvikum er gert ráð fyrir nánu samráði og samstarfi milli eftirlitsstofnana ESB og Eftirlitsstofnunar EFTA.

Til að tryggja að sú niðurstaða sem endurspeglast í áðurnefndu samkomulagi og að útfærsla hennar samræmist að öllu leyti þeim meginviðmiðum sem mótast hafa í fræðilegri umfjöllun og fyrri álitsgerðum hafa stjórnvöld notið ráðgjafar Skúla Magnússonar, héraðsdómara og dósents við lagadeild Háskóla Íslands, varðandi stjórnskipuleg álitamál við aðlögun kerfisins að EES-samningnum. Hann hefur einnig unnið álitsgerð um stjórnskipulegar heimildir til innleiðingar tiltekinna nýrra EES-gerða um fjármálaeftirlit í EES-samninginn sem er prentuð sem fylgiskjal XI með tillögunni.

Virðulegur forseti. Í athugasemdum við þá þingsályktunartillögu sem hér er mælt fyrir er gerð grein fyrir aðkomu Alþingis að upptöku þessara gerða, fjármálaeftirliti á vettvangi Evrópusambandsins, gerðum í ákvörðunum sem leitað er eftir heimild til að taka upp í EES-samninginn og fyrirhuguðum lagabreytingum af því tilefni. Einnig er gerð grein fyrir stjórnskipulegum álitaefnum við aðlögun valdheimilda samevrópsku eftirlitsstofnananna að EFTA-stoð samningsins, samningaviðræðum um aðlögun og áhrif hér á landi.

Fyrirhugað er að ákvarðanir þær sem þingsályktunartillagan tekur til verði teknar á síðasta fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar fyrir sumarhlé. Að jafnaði hefur samþykkis Alþingis í sams konar tilvikum ekki verið leitað fyrr en eftir að ákvörðun hefur verið tekin í sameiginlegu EES-nefndinni. Með því hins vegar að samningar um aðlögun og upptöku gerða um eftirlit á fjármálamarkaði hafa þegar staðið yfir í á fjórða ár og brýnt þykir að ákvörðun um upptöku þeirra geti öðlast gildi sem fyrst eftir að hún er tekin, er með þingsályktunartillögunni leitað eftir heimild Alþingis til að staðfesta ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það hefur þá þýðingu að ákvarðanir nefndarinnar þarf ekki að taka með stjórnskipulegum fyrirvara, en það mun flýta fyrir að ákvarðanirnar geti öðlast gildi bæði hér á landi og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Er þá einnig tekið tillit til þess að utanríkismálanefnd Alþingis hefur fylgst náið með framvindu viðræðna og undirbúningi að upptöku gerða á þessu sviði og reglulega fengið á fundi til sín þá sérfræðinga sem að því hafa komið.

Virðulegur forseti. Undirbúningur þessa máls hefur tekið langan tíma, bæði í viðræðum við samstarfsaðila okkar innan EFTA, en einnig í viðræðum við framkæmdastjórn ESB. Stjórnvöld hafa í alla staði kappkostað að vanda til verka og kallað til liðs við sig færustu sérfræðinga sem völ er á, sérstaklega við úrlausn hinna stjórnskipulegu álitaefna sem upp hafa komið, og þau hafa krafist þess að fundin sé aðlögun sem standist viðteknar stjórnskipulegar kröfur. Stjórnvöld hafa einnig gætt þess að upplýsa hv. utanríkismálanefnd Alþingis um framvindu málsins með reglubundnum hætti. Auk þess hafa hagsmunaaðilar fylgst með stöðu mála.

Ég bind vonir við að þingsályktunartillagan sem hér er mælt fyrir fái greiða meðferð á hinu háa Alþingi og að breið pólitísk samstaða geti tekist um afgreiðslu hennar.

Í fjármála- og efnahagsráðuneytinu er síðan unnið að undirbúningi innleiðingar löggjafar. Þar er um nokkurn fjölda lagafrumvarpa um að ræða, þar með talið sérlög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Áætlanir gera ráð fyrir að þau frumvörp geti verið lögð fyrir hið háa Alþingi nú í haust.

Að svo mæltu legg ég til, virðulegur forseti, að þingsályktunartillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.