145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 197/2015 um breytingu á I. viðauka við EES-samninginn.

686. mál
[13:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 197/2015 um breytingu á I. viðauka við EES-samninginn um heilbrigði dýra og plantna og fella inn í samninginn reglugerðir um aukaafurðir úr dýrum.

Reglugerðirnar segja til um við hvaða aðstæður skuli farga aukaafurðum úr dýrum til að fyrirbyggja áhættu fyrir heilbrigði manna og dýra. Einnig er tilgreint við hvaða skilyrði megi nota aukaafurðir úr dýrum í fóður og í ýmsum tilgangi, svo sem í snyrtivörur og lyf. Þá er mælt fyrir um að rekstraraðilar séu skuldbundnir til að taka aukaafurðir úr dýrum til meðferðar í fyrirtækjum og stöðvum sem eru undir opinberu eftirliti. Samkvæmt EES-samningnum beitir Ísland í dag eldri EES-reglum um sömu mál en reglugerðir þær sem hér um ræðir voru settar í kjölfar mats á virkni þeirra eldri. Umgjörðin um þennan málaflokk er óbreytt en nýju reglugerðunum er ætlað að minnka byrðar á hagsmunaaðila, gera reglurnar skýrari og eyða óvissu varðandi til dæmis gildissvið reglnanna og tryggja þannig öryggi matvælakeðjunnar.

Innleiðing reglugerðanna kallar á lagabreytingar hérlendis og er gert ráð fyrir því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um slátrun og sláturafurðir og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru á yfirstandandi þingi. Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.