145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 293/2015 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn.

682. mál
[14:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 293/2015 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn um félagarétt og fella inn í samninginn tilskipun um árleg reikningsskil, samstæðureikningsskil og tilheyrandi skýrslur tiltekinna tegunda fyrirtækja.

Tilskipunin fjallar um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð og fellir úr gildi eldri ársreikningatilskipun. Einnig tekur tilskipunin til reglna um samstæðureikninga sem áður var að finna í eldri tilskipun. Er því komin ein tilskipun sem fjallar um ársreikninga og samstæðureikninga félaga af tiltekinni gerð. Markmiðið með tilskipuninni er meðal annars að draga úr umsýslukostnaði lítilla og meðalstórra fyrirtækja, bæta viðskiptaumhverfi fyrirtækja og auka gæði og samanburðarhæfni birtra upplýsinga.

Innleiðing gerðarinnar kallar á lagabreytingar hérlendis og hefur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagt fram frumvarp á yfirstandandi þingi til breytinga á lögum um ársreikninga.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.