145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:13]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa brugðist skjótt og vel við og hafa lagt kapp á að þessi tillaga yrði tilbúin sem fyrst. Að einhverju leyti hefur ákveðnum aðgerðum hennar þegar verið hrint í framkvæmd. Við vorum nokkrir þingmenn úr nokkrum flokkum sem lögðum þetta til fyrr á kjörtímabilinu með þingsályktunartillögu og það væri mjög ánægjulegt ef við næðum að samþykkja tillöguna á þessu þingi.

Í tillögunni eru lögð fram meginmarkmið í geðheilbrigðisstefnu sem eru aukin vellíðan og betri geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra. Þá eru undirmarkmið um samþætta og samfellda þjónustu við einstaklinga með geðraskanir, um að uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra og að fólki verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu. Þá eru taldar upp 18 aðgerðir og fjármunirnir sem varið er í þetta á yfirstandandi ári og næstu þremur árum eru 562 millj. kr. Þetta er góð byrjun en mun meira fjármagn þarf að koma til, eins og ég mun koma að í niðurlagsorðum mínum. Þessar 18 aðgerðir eru mjög góðar. Ég ætla aðeins að fara yfir þær á eftir.

Velferðarnefnd gerir takmarkaðar breytingar á þessari aðgerðaáætlun en kemur með ýmsar ábendingar í mjög ítarlegu nefndaráliti sem fylgir þingsályktunartillögunni. Það er 11 síður, en þess ber að geta að nefndin gaf sér góðan tíma til umfjöllunar, enda komu gríðarlega margar umsagnir um málið. Við vildum hitta umsagnaraðila og fjalla um athugasemdir þeirra í nefndaráliti af því að við töldum athugasemdirnar í langflestum tilfellum góðar og förum við yfir hvernig við sjáum annaðhvort að hægt sé að rúma þær innan áætlunarinnar eða að líta þurfi til þeirra til lengri tíma litið.

Á síðastliðnum árum hefur orðið mikil vakning í umræðu um geðheilsbrigðismál. Þar ber fyrst og fremst að þakka notendahópum, samtökum fólks sem hefur glímt við geðraskanir af ýmsu tagi eða sem eru aðstandendur fólks með geðraskanir. Það eru þeir hópar sem hafa vakið upp umræðuna um mikilvægi geðheilbrigðismála, að það þurfi bætta þjónustu, breytt viðhorf og að við þurfum að huga miklu betur að því sem samfélag.

Nú er það svo að hlutfall þeirra fjármuna í heilbrigðisþjónustu sem fer til geðheilbrigðismála er ekki í neinu samræmi við það hversu hátt hlutfall þeirra sem leita á náðir heilbrigðisþjónustunnar gerir það vegna ýmissa geðrænna vandamála. Það er þannig með okkur manneskjurnar að við erum andi og efni og það eru fleiri og fleiri rannsóknir sem benda til þess að andleg vanlíðan hafi áhrif á líkamlega kvilla. Það á að grípa nógu vel inn í og vera með fordómalaust samfélag þar sem við skömmumst okkar ekki fyrir að líða illa andlega heldur lítum á það sem hvern annan kvilla og lítum á það sem sjálfsagðan hlut að leita okkur aðstoðar og fáum hana á viðráðanlegu verði eða gjaldfrjálsa. Það er mikilvægt að koma á slíkri stefnubreytingu í samfélaginu. Ég tel að sú stefnubreyting sé að verða en við eigum enn þá þó nokkuð í land. Þetta eru mál sem varða okkur öll. Við þekkjum það öll út frá persónulegri reynslu okkar eða einhverra sem standa okkur nærri að andleg vellíðan, geðheilbrigði, gott geðheilbrigði er grundvöllur að því að vera fúnkerandi einstaklingur í samfélaginu og að geta verið til staðar fyrir aðra sem og sjálfum sér og öðrum til gagns. Þetta er gríðarlega mikilvægur málaflokkur og eins og ég segi vil ég endurtaka þakkir mínar til hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa farið af stað í verkefnið af fullum krafti.

Ég ætla að telja upp þau verkefni sem hér eru þótt það sé svolítil upptalning. Undir markmiðinu um samfellda og samþætta þjónustu er aðgerð um að bundið verði í lög að ríki og sveitarfélög geri með sér samstarfssamning um útfærslu samþættrar þjónustu við einstaklinga með geðraskanir og þar verði meðal annars áskilið að sett verði á fót geðheilsuteymi í samstarfi við heilbrigðisþjónustu og sveitarfélög. Svo er lagt til að þjónusta sálfræðinga standi til boða á heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum sem sinna heilsugæslu í samræmi við samsetningu og stærð þjónustusvæða.

Þá er verkefni sem heitir „Tölum um börnin“/Fjölskyldubrúin sem á að innleiða innan velferðarþjónustunnar, sem er þá heilbrigðis-, félags- og menntakerfið. Þetta er mikilvægt verkefni til þess að draga úr því að geðheilsuvandi flytjist milli kynslóða, því að þegar fullorðinn einstaklingur er veikur þá hafi þau veikindi mjög mikil áhrif á líf barnsins og möguleika þess til þroska. Ég fékk sent myndband um daginn sem er inni á heimasíðu Geðverndar um hver eigi að hjálpa Jesper. Þar er sagt í formi klippimyndar frá litlum dreng en móðir hans er alkóhólisti og með geðrænan vanda. Þau búa tvö systkinin með henni á heimilinu og þetta hvílir á þeim eins og mara. Hann fer í leikskólann og það er auðvitað í nærumhverfi barnanna þar sem börnum er veitt þjónusta sem við þurfum að vera sérstaklega vakandi fyrir líðan þeirra og þekkja einkenni þess þegar börn takast á við hluti og ábyrgð sem ekkert barn á að þurfa að bera. Það er okkar allra sem samfélags að taka ábyrgð þegar foreldrarnir eru í þeirri stöðu að þau eru ófær um það. Það þarf að hjálpa foreldrunum, en það þarf líka að líta sérstaklega til barnanna og aðstoða þau, því að annars er mjög mikil hætta á að geðheilsuvandi flytjist milli kynslóða og rannsóknir sýna hvernig hægt er að draga úr þeirri hættu með markvissri vinnu og stuðningi við börnin.

Það er einmitt eitt af verkefnunum að koma á reglubundinni fræðslu um geðheilsu og geðraskanir fyrir starfsfólk í félags- og heilbrigðisþjónustu og þjálfun í einfaldri íhlutun. Þá er lögð til efld þjónusta á göngudeild BUGL. Það á að setja á fót starfshóp sem kanni hvort fjarþjónusta geti nýst til að veita fólki meðferð vegna geðraskana. Hér á landi í hinum dreifðari byggðum er oft miklu takmarkaðra aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu í heimabyggð og það á ekki að mismuna fólki eftir búsetu í þessu frekar en öðru.

Lagt er til að byggð verði upp þekking á hjúkrunarheimilum til að veita öldruðu fólki með geðheilsuvanda þjónustu.

Níunda verkefnið gengur út á að mæta uppsafnaðri þörf geðfatlaðs fólks fyrir húsnæði og þjónustu og svo komum við að kafla um geðrækt og forvarnir. Þar er lagt til að sett verði á fót þverfaglegt teymi í nærumhverfi sem sinni fræðslu, þjálfun, ráðgjöf og stuðningi við foreldra og fjölskyldur. Lagt er til að settur verði á fót starfshópur til að gera tillögur um geðræktarstarf í skólum. Svo er tillaga um að skimað verði fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna í efstu bekkjum grunnskóla og veittur verði viðeigandi stuðningur eða meðferð ef viðkomandi telst í áhættuhópi. Inn í áætlunina er felld tillaga frá hv. þm. Karli Garðarssyni sem var með sérstaka þingsályktunartillögu um skimun meðal barna vegna kvíða, depurðar og þunglyndis.

Síðan lagt til að sett verði fram áætlun um innleiðingu gagnrýndra aðferða til að draga úr sjálfsvígum ungmenna.

Það er kafli um fordóma og mismunun og þar eru fimm aðgerðir: Að fundnar verði árangursríkar leiðir til að minnka fordóma í garð fólks með geðraskanir, að settar verði fram leiðbeiningar fyrir fjölmiðla um hvernig unnt er að fjalla um geðheilbrigðismál án þess að alið sé á fordómum, að ríki og sveitarfélög ráði fólk sem hefur lent utan vinnumarkaðar vegna langvinnra geðraskana til starfa í stofnunum sínum og að í reglubundinni heilsufarsskoðun hælisleitenda verði lagt mat á geðheilsu þeirra.

Að lokum tel ég hér aðgerð um þekkingu starfsfólks í geðheilbrigðisþjónustu og réttindum sjúklinga til túlkaþjónustu. Það þarf að auka þekkingu á réttindum til túlkaþjónustu.

Þetta eru þær 18 aðgerðir sem lagðar eru til og við styðjum allar aðgerðirnar en erum með nokkrar breytingartillögur sem ég ætla að fara yfir. Í hinu ítarlega nefndaráliti fjöllum við um þjónustu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta, en við fengum umsögn frá Félagi heyrnarlausra þar sem bent er á að sá hópur sem var fyrir nokkrum áratugum tekinn út af heimilum sínum, jafnvel við fjögurra ára aldur, og settur á heimavistarskóla, fékk ekki að læra táknmál þrátt fyrir að vera heyrnarlaus eða alvarlega heyrnarskertur og átti að læra hefðbundið tungumál, hafi í raun og veru verið sviptur samvistum við fjölskyldu sína eða eðlilegu uppeldi hjá fjölskyldum sínum og sviptir tungumáli. Þetta eru gríðarlegir glæpir gagnvart þessu fólki, fyrir utan að mörg börn sem þarna voru vistuð máttu sæta ofbeldi af ýmsu tagi. Okkur var bent á að í raun hafi þörfum þessa fólks fyrir geðheilbrigðisþjónustu ekki verið mætt almennilega. Það ber líka að geta þess að sumt af fólkinu hefur sjálft orðið foreldrar og þyrfti aðstoð til að takast á við foreldrahlutverkið þar sem það hefur ekki alist upp í eðlilegu fjölskylduformi og eðlilegum samskiptum við foreldra sína.

Við í nefndinni töldum að við yrðum að bregðast við þessum athugasemdum því að það er nóg komið. Nú verðum við að mæta fólki og reyna að veita því þá aðstoð sem möguleg er. Í lið A.2, þar sem talað er um geðheilsuteymi í samstarfi heilbrigðisþjónustu og sveitarfélaga, leggjum við til að eitt af þessum teymum sérhæfi sig í þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta einstaklinga sem reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta og glíma við geðröskun. Það er mikilvægt því að þau bentu líka á varðandi það að vera alltaf með túlk sem millilið að ef verið er að túlka fyrir einstakling sem ekki skilur döff menningu og ekki kann táknmál þá getur orðið í misskilningur á milli í persónulegum og viðkvæmum málum, þannig að sú líðan og tilfinningar sem fólk er að tjá túlkist ekki nægilega vel á milli. Það sé því mikilvægt að þeir sem veita slíka þjónustu hafi færni í notkun táknmáls og geti talað beint við viðkomandi einstakling. Þetta getum við öll ímyndað okkur. Ef við værum sjálf að fara til geðlæknis eða sálfræðings eða heimilislæknis og þyrftum að eiga öll samskipti við þá aðila í gegnum túlk frá öðru menningarsvæði gæti margt brenglast þar á milli. Í þeim málum er mjög mikilvægt þegar fólk þarf einstaklingsmiðaða þjónustu að sá sem veitir hana skilji tungumál og menningarheim fólks. Við leggjum til breytingu þarna og jafnframt í réttindum til túlkunar, að ekki verði eingöngu tekið mið af rétti til túlkaþjónustu fyrir innflytjendur heldur líka fyrir heyrnarlaust og heyrnarskert fólk.

Það var umræða um fanga og skort á geðheilbrigðisþjónustu við fanga. Mjög hátt hlutfall fanga á Íslandi eru með ADHD og á við ýmsan geðheilsuvanda að stríða og mikilvægt er að við mætum því. Við lítum svo á að í geðheilsuteymum eigi að líta sérstaklega til fanga. Núna þegar verið er að breyta lögum og fangavist hefur í mörgum tilvikum verið stytt með aukinni áherslu á áfangaheimili er líka mikilvægt að auka geðheilbrigðisþjónustu við þá sem eru að ljúka afplánun og undirbúa sig fyrir fulla þátttöku í samfélaginu. Þetta kemur inn á þá stefnubreytingu sem við verðum að gera í refsimálum á Íslandi með aukinni áherslu á betrun, því að það er oft þannig að í fangelsum endar fólk sem hefur ekki fengið viðeigandi þjónustu og aðstoð sem full þörf hefði verið á, jafnvel allt frá barnæsku. Það er samfélagslegt vandamál að við hjálpum ekki fólki þegar þörf er á.

Það á að fjölga sálfræðingum innan heilsugæslunnar. Það var mikil ánægja með það og lögð rík áhersla á það fyrir nefndinni að gera þyrfti enn betur í þeim efnum og að fjölgun sálfræðinga með snemmtæku inngripi væri ein besta aðgerð í bættu geðheilbrigði þjóðar. Var vísað þar mjög til Bretlands sem hefur verið framarlega í geðheilbrigðismálum þar sem fjölgun sálfræðinga í heilsugæslunni og aukið aðgengi að hugrænni atferlismeðferð og slíku hefur skilað gríðarlega góðum árangri. Það voru ekki eingöngu sálfræðingar sem bentu á þetta heldur einnig aðrar fagstéttir, ekki síst geðlæknar, að fjölgun sálfræðinga og aðgengi að ódýrri eða gjaldfrjálsri sálfræðiþjónustu væri gríðarlega mikilvæg. Við tökum heils hugar undir þetta.

Ég vil nota tækifærið og harma það að sálfræðiþjónusta komi ekki í auknum mæli inn í greiðsluþátttöku sem nú er verið að leggja fram frumvarp um í þinginu af hálfu hæstv. heilbrigðisráðherra. Svo vil ég minna á að við erum nokkrir þingmenn sem leggjum fram þingsályktunartillögu um gjaldfrjálsa þjónustu sálfræðinga í framhaldsskólum. Tilraunir með þetta hafa verið gerðar í Verkmenntaskólanum á Akureyri með mjög góðum árangri. Ungmenni í dag búa í mjög flóknum veruleika með miklu áreiti og miklum væntingum og það er mikið ákall eftir því úr hópi ungs fólks að fá aukið aðgengi að þjónustu sálfræðinga og fleiri fagstétta á því sviði.

Þá var einnig bent á að þeir sem sinna geðrænum málum og andlegri vellíðan væru ekki eingöngu sálfræðingar heldur fjölmargar aðrar stéttir, svo sem félagsráðgjafar, fjölskylduráðgjafar og fleiri slíkir. Tekið er til þess í tillögunni að fjölga eigi sálfræðingum og síðan einnig að fá inn í þessi teymi fjölbreyttari flóru fagstétta. Það er einmitt í þeim punkti, þegar það koma saman einstaklingar með ólíkan vinkil á vandann og ólíka reynslu og sýn, sem besti árangurinn næst. Við hvetjum til þess að haldið verði áfram á þeirri braut.

Mikið var rætt um biðlista og eflingu geðheilbrigðisþjónustu við börn. Gagnrýnt var að ekki væri talað nógu mikið um börn í áætluninni. Ég verð samt að viðurkenna að ég er ekki alveg sammála því. Ég tel að lagðar séu til aðgerðir sem einmitt beinist að því að auka þjónustu við börn og meðvitund um líðan barna og nauðsyn á snemmtækum inngripum.

En það eru ekki aðeins notendahópar og faghópar sem gagnrýna biðlista heldur skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu á meðan við vorum með þessa áætlun til umsagnar um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga, annað og þriðja þjónustustig. Ég ætla ekki að rekja mjög náið það sem fram kemur þar, nema að þar er mjög gagnrýnt að ekki sé skilgreindur tími um viðunandi lengd á bið barna eftir þjónustu. Börn bíða mjög lengi eftir þjónustu og mörg þeirra meira en ár. Það er mjög hátt hlutfall af lífi barns eða bernskunni. Við vitum að í lífi okkar fullorðna fólksins getur bið eftir nauðsyn verið dálítið erfið, en þetta getur dregið úr þroska barna eða haft neikvæð áhrif á þroska barna og virkilega eyðilagt fyrir þeim mikilvægt æviskeið. Það þarf því að skilgreina viðunandi biðtíma fyrir börn eftir geðheilbrigðisþjónustu. Svo er talað mikið um samræmingu á þjónustustigunum, að verkaskiptingin sé ekki nógu skýr, að ábyrgðin sé ekki alltaf skýr og börn geti auðveldlega fallið á milli kerfa.

Ég vil líka taka fram að mér finnst hæstv. heilbrigðisráðherra hafa sýnt góða viðleitni í geðheilbrigðismálum þótt ég vilji að hann geri betur. Hann ákvað í árslok 2015 að leggja til 45 millj. kr. til að efla þjónustu á BUGL og stytta biðtímann. Það er gott að halda því til haga að þótt það dugi ekki nema skammt mun það samt sem áður skipta sköpum fyrir fjölda barna.

Þá er það skimun og snemmtæk íhlutun. Það var mikið rætt um skimun í nefndinni og voru deildar meiningar um hvenær hún ætti að fara fram og hverjir ættu að framkvæma hana. Bent var á að í raun ætti að vera með skimun fyrir foreldrana í mæðraeftirliti og ungbarnavernd. Þar væri oft rót vandans, það gengi illa í upphafi og því þyrfti að koma snemma inn. Svo væru börn á leikskólum og síðan væru hjúkrunarfræðingar með almennar skoðanir í 1., 4. og 7. bekk. Það var almennt mál að slíkt væri of seint að gera í allra efstu bekkjum grunnskóla.

Svo komu líka frá Þroska- og hegðunarmiðstöð, sem heyrir undir heilsugæsluna, athugasemdir um að þetta væri mjög víðtækt inngrip, að það væri mjög umfangsmikil aðgerð og umdeilanleg að fara með öll börn í skimun. Ef við færum í prógramm eins og Bretar um 1.001 dag, sem er barnið frá getnaði upp til tveggja ára aldurs, þetta gríðarlega mikilvæga mótunarskeið einstaklingsins, og einblíndum betur á það og gripum inn í í augljósum áhættuhópum mundum við ná betri árangri.

Við í nefndinni tökum undir að við eigum að beina sjónum okkar að yngsta aldurshópnum í auknum mæli en við vildum ekki falla frá skimuninni, það var nokkur samstaða um hana. Við gerum hins vegar þá breytingu að við tökum út orðin „í efstu bekkjum grunnskóla.“ Þá verður skimað fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna og veittur viðeigandi stuðningur eða meðferð ef viðkomandi telst í áhættuhópi. Við segjum að meta þurfi betur hvar við náum bestum árangri og þessi aðgerð gagnast börnunum sem best. Við breytum líka framkvæmdaliðnum, orðalagi. Þar bendum við á að beitt verði gagnrýndum aðferðum við að skima fyrir kvíða, depurð og þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna. Þeim börnum sem á þurfa að halda verði eftir nákvæma greiningu veitt meðferð í samræmi við klínískar leiðbeiningar og gagnrýndar aðferðir.

Sálfræðingafélagið lagði mikla áherslu á að við töluðum um klínískar leiðbeiningar og gagnrýndar aðferðir þegar við værum að tala um meðferð. Við verðum í fæstum tilvikum við þeim athugasemdum þeirra, enda lítum við svo á að heilbrigðisþjónusta sem veitt er sé veitt í samræmi við klínískar leiðbeiningar og gagnrýndar aðferðir. Það er grundvöllurinn í heilbrigðisþjónustu. Það er gengið út frá því en við setjum það þarna inn til að hnykkja á því að þegar farið er í svona víðtækt inngrip verðum við líka að vera með almennileg viðbrögð ef börn þurfa á þjónustu að halda. Þá verði það að vera í samræmi við klínískar leiðbeiningar og gagnrýndar aðferðir en ekki einhver kattarþvottur, því að þá er það ekki til neins.

Við fjöllum líka um hælisleitendur. Það er aðgerð fyrir þá og við bendum á að ekki sé nægilegt að það sé einungis við komuna til landsins heldur komi oft vandkvæði í ljós nokkrum mánuðum eftir að fólk kemur til landsins og það þurfi að vera áframhaldandi eftirlit.

Þá erum við komin að ADHD og einhverfu. Það var mjög gagnrýnt að ekki væri talað sérstaklega um það í áætluninni. Ég tek heils hugar undir það. En við bendum á að við fengum þær upplýsingar að starfshópur er að hefja störf sem á að fara yfir umgjörðina varðandi þjónustumeðferð og stuðning við börn sem glíma við frávik eða aðra erfiðleika í hegðun eða glíma við mikla vanlíðan og þetta varðar sérstaklega ADHD. Starfshópurinn á að skila niðurstöðu í september og við segjum að mikilvægt sé að hópurinn ljúki störfum sem fyrst og í kjölfarið verði tillögum hans fylgt eftir, enda sé það mat nefndarinnar að brýnt sé að gera nauðsynlegar úrbætur í þjónustu við börn með ADHD.

Svo ræðum við um hæfingu og endurhæfingu og mikilvægi þess að bæta enn frekari í hæfingu og endurhæfingu og fjölga þeim, því að geðheilbrigðisvandi sé ein helsta orsök í nýgengi örorku hér á landi.

Í niðurlaginu tökum við undir ábendingar frá Ríkisendurskoðun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga og leggjum til að brugðist verði við þeim. Það þurfi að skýra verksvið þjónustustiga, auka samráð og samvinnu innan þjónustukerfisins í heild og skilgreina ásættanlegan biðtíma fyrir börn.

Við segjum að þetta sé mjög gott fyrsta skref, en við teljum að enn sé mikið verk fyrir höndum áður en þessum málaflokki verður mörkuð fullnægjandi stefna.

Í þeirri vinnu sem fram undan er telur nefndin að velferðarráðuneytið þurfi að taka afstöðu til þess að fjölga sálfræðingum frekar en gert er ráð fyrir í tillögunni, sem að mati nefndarinnar er lykilatriði í skimun og snemmtækri íhlutun. Þá er brýnt að ráðuneytið taki afstöðu til athugasemda umsagnaraðila og bregðist við þeim á viðeigandi hátt. Enn fremur þarf að tryggja eftirfylgni með markmiðum þingsályktunartillögunnar og huga strax að nýrri aðgerðaáætlun sem taki við að fjórum árum liðnum. Í nýrri aðgerðaáætlun er mikilvægt að mótuð verði heildstæð stefna með vel skilgreindum markmiðum og að endurskoðaðar verði fjárveitingar til málaflokksins sem að mati nefndarinnar hafa verið of lágar.

Allir í nefndinni standa að nefndarálitinu en hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Við í nefndinni styðjum tillöguna og erum ánægð með hana sem fyrsta skref, en eins og lesa má af nefndarálitinu teljum við mikla (Forseti hringir.) vinnu fram undan til að koma málaflokknum í viðunandi horf hér á landi.