145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég tek bara undir það. Við eigum að leggja meira í að fyrirbyggja. Ég vil samt meina að í þessu sé verið að leggja til að auka geðræktarstarf í skólum, að grípa fyrr inn í. Það að grípa fyrr inn í er líka forvörn í sjálfu sér. UNICEF hefur verið sérstaklega á vaktinni fyrir börn, auk umboðsmanns barna, Barnaheilla og Barnaverndarstofu. En þá er það þannig að efnislegar aðstæður barna skipta miklu máli. Þess vegna erum við mörg í þessu samfélagi sem viljum berjast fyrir jöfnuði og félagslegu réttlæti því að það eykur á vellíðan fólks þegar bilið fer að breikka. Sum börn lifa í einhvers konar gósenveruleika en önnur lifa við það að foreldrar þeirra eiga erfitt með að fæða þau og klæða og geta aldrei boðið þeim upp á hinn markaðsvædda veruleika sem hin börnin búa við. Þó að hann sé ekki endilega eftirsóknarverður þá myndast vanlíðan, kvíði og allra handa tilfinningar.

Svo er það auðvitað þannig að okkur foreldrum eru mislagðar hendur í uppeldinu. Við göngum í gegnum erfiðleikatímabil sem hafa áhrif á börnin okkar. Því vil ég sem jafnaðarmaður nota tækifærið og segja að þegar við búum í samfélagi þar sem við deilum kjörum og þar sem við njótum góðrar gjaldfrjálsrar almannaþjónustu þá erum við líka í forvörnum til þess að skapa betri líðan borgaranna í landinu.