145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ábendingarnar.

Varðandi greiningar, ég held reyndar að það sé með ýmsu móti því að fjölmargir einstaklingar sem fá greiningar fá einhvers konar meðferð en það hefur auðvitað verið gagnrýnt mjög hér á landi, ekki síst af ADHD-samtökunum, að aðgengi sé að lyfjum en lítið að annars konar þjónustu. Svo hafa lyf vegna ADHD — gríðarlegir fordómar eru í garð þeirra lyfja í samfélaginu sem hafa reynst mjög erfiðir fyrir þá sem í raun og veru þurfa nauðsynlega á þeim að halda af því að sum af þeim lyfjum eru líka notuð af fíklum, en það á ekki að vera vandamál þeirra sem reiða sig á þau til að geta lifað eðlilegu lífi.

Varðandi geðræktarstarf í skólum þá kemur einmitt fram hér að það er heilsueflandi í leik- og grunnskóla og framhaldsskóla og mikið starf er í gangi. Það þarf kannski líka að meta hvað gagnast best. Allt það góða starf sem á sér stað í skólunum — fara þarf svolítið markvisst í það að miðla þekkingu um hvað gagnast best.

Nú þekki ég þetta best sem leikmaður, en ég sem foreldri lít svo á að einmitt í gegnum hrunið hafi grunnskólarnir og leikskólarnir verið í lykilhlutverki varðandi það að tryggja börnum öryggi og vellíðan. Ég er alltaf jafn þakklát þegar ég sé hvað er í raun verið að vinna með líðan barna, samskipti barna og að þroska þau í samskiptum hvert við annað. Ég tel að við séum að fá upp nýjar kynslóðir sem eru með miklu meiri tilfinningaþroska en mín kynslóð hafði og (Forseti hringir.) það sé ekki síst að þakka mjög markvissu starfi í skólum landsins (Forseti hringir.) og tengist einnig innleiðingu barnasáttmálans hér á landi.