145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. og formanni hv. velferðarnefndar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir ræðuna þar sem hún fór gríðarlega vel yfir þessa tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Hún fór einnig vel yfir þær breytingartillögur sem hv. velferðarnefnd leggur til. Ég tel að þær séu allar mjög til bóta og þétti, ef svo má að orði komast, enn frekar þessa aðgerðaáætlun og geri hana enn betri.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem vék nú reyndar aðeins að því í ræðu sinni, enn frekar út í það hvort hv. þingmaður sé mér sammála eða hver sýn hennar sé á það hvort ekki dragi dálítið bitið samt úr þessari annars ágætu þingsályktunartillögu eða veiki hana að í frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra um hámark á greiðslum til heilbrigðismála sé sálfræðiþjónustan ekki inni, og hvort það væri ekki meiri samkvæmni í því, ef við erum að fara að samþykkja þessa þingsályktunartillögu sem ég tel að við séum að fara að gera, að styrkja einmitt þennan hluta í frumvarpi heilbrigðisráðherra með því að Alþingi tæki til dæmis þá ákvörðun að setja inn peninga til að koma megi sálfræðiþjónustunni þar inn undir greiðsluþakið, alla vega að einhverju marki. Hvort við (Forseti hringir.) þurfum ekki að taka þessi mál dálítið saman.