145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið.

Ég vil einnig taka undir það að ég er líka sammála hæstv. heilbrigðisráðherra að það sé gott fyrsta skref að koma með sálfræðiþjónustuna inn á heilsugæslustöðvarnar.

En mig langar að ítreka það sjónarmið mitt að ég tel mjög mikilvægt að sálfræðikostnaður verði tekinn með inn í það greiðsluþak sem sjúklingar eiga að bera samkvæmt frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra.

Mig langar að beina því til hv. þingmanns, sem er formaður hv. velferðarnefndar, að þegar nefndin fer að fjalla um það frumvarp verði höfð hliðsjón af þessu. Það er í það minnsta mín skoðun að það mundi styrkja góða og ég held framsækna aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum ef sálfræðiþátturinn yrði styrktur enn frekar með auknum framlögum úr ríkissjóði. Mig langar því að beina því til nefndarinnar að hún skoði það sérstaklega til að ná betri samfellu og þéttari stefnu í þessu máli.