145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[15:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst hér til að fagna því að við séum þó komin á þennan stað að vera hér með til síðari umræðu og afgreiðslu í framhaldinu fyrstu áætlunina, stefnumótun og aðgerðaáætlun, í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Ég þakka formanni velferðarnefndar og framsögumanni okkar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir framsögu hennar og ég get stytt mál mitt með því að vísa til margs af því sem hún sagði hér, en vil engu að síður leggja orð í belg um nokkur atriði.

Það fyrsta sem ég tel að við skulum ekki gera lítið úr er mikilvægi þess að halda áfram að þróa umfjöllun um þessi mál þannig að þau komist betur upp á yfirborðið. Að við gerum allt sem í okkar valdi stendur, þar á meðal hér á Alþingi og af hálfu stjórnvalda, til þess að umræða um þessi mál, allt sem snýr að geðheilbrigði, geðrænum vanda, geðröskunum og geðrænum kvillum, sé rætt upplýst, fordómalaust og á hjálplegan hátt og til stuðnings því fólki sem við þennan vanda glímir en ekki öfugt, eins og því miður hefur stundum verið. Það er alveg gríðarlega mikilvægt og vissulega gleðst maður yfir því þegar maður sér vísbendingar um að aðeins séum við nú að þokast í rétta átt í þessum efnum. Á þessu ári og undanfarna mánuði og missiri hefur til dæmis aðeins borið á því að ungt fólk er orðið kjarkmeira og kemur fram af miklum hetjuskap og lýsir glímu sinni við vandamál af þessu tagi í staðinn fyrir að loka það inni. Það er ákaflega mikilvægt þannig að í samfélaginu öllu, á vinnustöðum, í skólum og innan fjölskyldna og annars staðar, sé hægt að takast á við þetta á farsælan hátt.

Þetta er útbreiddur hluti af veruleika okkar, lífi okkar, og tengist velflestum ef ekki eiginlega öllum fjölskyldum í landinu á einhvern hátt og á einhverju æviskeiði, að einhverjir eiga við erfiðleika á andlegu sviði að glíma. Ég tek hjartanlega undir það. Þess vegna er aðgreining geðheilsu og annarrar líkamlegrar heilsu mjög skaðleg ef hún á ásamt með öðru þátt í að menn meðhöndla þessi vandamál á annan hátt, ég segi ekki beinlínis að þau teljist annars flokks en þó er það þannig upp að vissu marki. Það er vont að senda slík skilaboð að kostnaður sem lendir á einstaklingum vegna þess að þeir eiga við þessa tegund heilsuvanda að stríða sé síður endurgreiddur og borinn sameiginlega af samfélaginu en ef um líkamlegan heilsubrest er að ræða.

Að þessu sögðu var líka ánægjulegt að verða vitni að því starfi velferðarnefndar, hversu gríðarlegur áhugi er þrátt fyrir allt á þessum málum úti í samfélaginu, meðal fagstétta, og satt best að segja frumkvæði í þeim efnum sem þeir hv. þingmenn sem hreyfðu upphaflega við málinu hér á þingi 2013–2014 eiga þakkir skildar fyrir. Því til marks er upphafsblaðsíða nefndarálits velferðarnefndar, eða fyrsta eina og hálfa blaðsíðan í nefndarálitinu, því að þar er að líta einhvern myndarlegasta lista sem ég hef, næstum að segja, séð af þessu tagi þar sem er óhemjumikill fjöldi gesta, fagfólks og alls konar gesta úr öllum áttum, sem kom fyrir nefndina, enda varði nefndin verulegum tíma í þetta mál, og síðan ítarlegar umsagnir frá um 40 aðilum, ef ég man rétt. Mjög margir láta sig þessi mál varða, sem betur fer.

Um afurðina hér, þ.e. tillöguna eins og hún kom fram upphaflega og með breytingum þeim sem velferðarnefnd leggur til á stefnunni og aðgerðaáætluninni, vil ég segja að í sjálfu sér er hún þegar farin að hafa áhrif, eins og kunnugt er. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur barist fyrir áherslum í fjárlagagerð sem ríma við megináherslur þessarar þó ósamþykktu aðgerðaáætlunar á sviði stefnumótunar og aðgerða varðandi geðheilbrigði. Hún er örugglega líka farin að hafa áhrif að sínu leyti á umræðuna og hún hefur greinilega ýtt við fjölmörgum fagaðilum og aðilum sem koma með einum eða öðrum hætti að þessum málum, samanber þann áhuga sem fram kom í starfi nefndarinnar í umsögnum og svo framvegis.

Það er þó að sjálfsögðu ekki þannig að þetta sé gallalaus eða fullkomin áætlun. Í reynd er hér miklu meira um að ræða aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára á þessu sviði en eiginlega heildstæða stefnumótun. Það er best að bara viðurkenna það og segja það eins og það er. Ef menn taka sjálfa tillöguna og skoða hana er það í raun og veru þannig að hún hefst á örstuttum inngangi þar sem markmið geðheilbrigðisstefnunnar eru skilgreind og undirmarkmið í örfáum línum og síðan kemur aðgerðaáætlunin sjálf. Á þetta var bent bæði af gestum og í umsögnum og það er alveg rétt að þessari vinnu þarf að fylgja eftir og vonandi, við næstu endurskoðun þessarar áætlunar, verður stefnumótunarkaflinn og heildstæð stefnumótun, yfirsýn yfir málaflokkinn, orðin miklu betur þætt saman við þær beinu aðgerðir sem menn síðan ætla að grípa til, kaflaskipt á hverjum tíma. Þar þarf tvímælalaust að halda áfram og gera betur.

Við ræddum þetta í velferðarnefnd en það voru auðvitað engin tök á því tímans og aðstæðna vegna að við gætum lagt í grundvallarvinnu af þessu tagi enda þarf þar að kalla fagaðila með til skrafs og ráðagerða. Slík heildarstefnumótun þarf að fæðast í víðtæku samstarfi aðila. Enda er það nú einn útgangspunktur aðgerðanna á þessu sviði að færa alla saman að borðinu og samþætta, svo sem eins og með samstarfssamningi sem ríki og sveitarfélög geri með sér. Má í því samhengi einnig benda á áherslur Ríkisendurskoðunar hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga.

Við fengum vandaðar umsagnir og gestakomur frá Félagi heyrnarlausra og þeim sem vinna með þeirra mál. Það er skemmst frá því að segja að nefndin tók undir þær athugasemdir og leggur til breytingar, samanber 1. tölulið, stafliði a og b, og 6. tölulið, breytingartillögur skjalsins, stafliði a, b og c, þar sem við tökum undir og leggjum til að tekið verði af skarið varðandi þá sérstöðu sem heyrnarlausir og heyrnarskertir búa við að þessu leyti. Það verður að horfa til þeirrar sérstöðu þegar þjónustan við þá er veitt. Það þarf sérhæfingu, sérhæft teymi, til að tryggja að þeir fái fullnægjandi greiningu, meðferð og aðstoð. Það gildir líka um þá þeirra sérstöðu að því leyti að íslenska táknmálið, þeirra móðurmál, er jafn rétthátt íslensku. Það höfum við sem betur fer leitt í lög og gerðum á síðasta kjörtímabili ásamt fleiri góðum hlutum, svo það sé nú nefnt. En það leggur líka stjórnvöldum skyldur á herðar að standa undir því að hafa gert íslenskt táknmál að móðurmáli þeirra.

Varðandi geðheilbrigðisþjónustu við fanga var það rætt og skoðað. Við lítum svo á að það sé að sjálfsögðu innifalið í tillögunni, þ.e. sem sérhæfð geðheilsuteymi í samstarfi við heilbrigðisþjónustu og sveitarfélög. Þar eru sérstaklega nefndir sem mögulegir samstarfsaðilar fyrir utan heilbrigðisstofnanir, sveitarfélögin og Samband íslenskra sveitarfélaga, Fangelsismálastofnun og notendasamtök. Það er alveg ljóst að þar erum við með það undir þótt vel megi segja að það kæmi alveg til greina að fjalla ítarlegar og meira aðskilið um þá stöðu sem fangar eru í og þurfa svo sannarlega á sínum stuðningi að halda.

Fjölgun sálfræðinga, sem hér hefur þegar verið rætt um og nefnt, eru fyrstu skrefin stigin í sambandi við að efla sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum. Það er að sjálfsögðu mjög jákvætt og tímabært. Það þarf að gera miklu víðar, svo sem eins og í skólunum og framhaldsskólunum, eins og líka hefur verið nefnt. Það er líka rétt ábending sem nefndin fékk að menn mega ekki nálgast málið með því að þar með sé öll mönnun tryggð eða séð fyrir öllum þörfum í þessum efnum því að fjölgun sálfræðinga breytir auðvitað ekki þörfinni fyrir teymisvinnu og aðkomu margra fleiri aðila, fleiri fagstétta. Á það ber að leggja áherslu um leið en því er að sjálfsögðu fagnað að sálfræðingum fjölgi og að aðgangur landsmanna að slíkri þjónustu verði auðveldari og greiðari.

Ég verð líka að taka undir það sem hér hefur verið rætt og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir nefndi að það á að taka það til alvarlegrar skoðunar hvort ekki sé löngu tímabært að hætta þessari aðgreiningu á kostnaði sem lendir á notendum sálfræðiþjónustu. Eins og staðan er í dag er alveg augljóst mál að efnahagur veldur gríðarlegri mismunun. Það er einfaldlega þannig að klukkustund hjá sálfræðingi sem seld er á taxta kostar um 15 þús. kr. Það er augljóst mál að þeir sem þurfa á slíkri aðstoð að halda vikulega eða jafnvel oftar reiða ekki allir auðveldlega fram þá fjármuni. Það er líka sá skavanki á þessu máli að þarna er aðgreining mismunandi heilsuvandamála áfram til staðar.

Varðandi biðlistana og þjónustu við börn og unglinga horfumst við í augu við mjög alvarlega stöðu og höfum lengi gert það þó að vissulega sé aðeins verið að sýna lit núna á að vinna niður hina löngu biðlista. Það er alveg ómögulegt að á allra viðkvæmasta tíma þegar þörfin fyrir snemmbæra aðstoð og íhlutun er hvað brýnust, þegar vandamálin gera vart við sig og koma upp á unga aldri, sem þau gera auðvitað í langflestum tilvikum — ég hygg að rannsóknir og tölfræði sýni að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem á annað borð glíma við geðraskanir eða geðræn vandamál einhvern tíma á ævinni, finni fyrir því strax í barndómi eða á unglingsárum. Þá er líka alveg ljóst að það getur haft gríðarlega mikið að segja að menn fái viðhlítandi aðstoð fyrir það sem eftir er af lífshlaupi viðkomandi einstaklings. Þá er ekki ásættanlegt að biðtími eftir þjónustu til dæmis barna- og unglingageðdeildar sé um ár, níu til átján mánuðir, og svo og svo langur tími líði eftir greiningu eða aðstoð hjá Þroska- og hegðunarstöð eða greiningarmiðstöð.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar kom inn í þessa vinnu og var mjög gagnlegt fyrir nefndina að fá hana. Við höfðum þá að vísu ekki orðið mikinn tíma til að taka í eins ríkum mæli mið af henni og mögulega hefði mátt gera. Engu að síður var gagnlegt að fá hana fram. Hún er með mjög skýrar ábendingar, sérstaklega um skipulag, stjórnsýslu og utanumhald í málaflokknum og um hvað þurfi að skýra í þeim efnum. Það held ég að allir séu sammála um. Að einhverju leyti má segja að verið sé að reyna að takast á við það með því að leggja kvaðir á menn um aukið samstarf og samstarfssamninga og byggja upp þverfagleg teymi og annað í þeim dúr, en þjónustan er auðvitað mjög dreifð og veitt af mörgum aðilum og á mismunandi stigum. Þannig verður það eðli málsins samkvæmt að vera upp að vissu marki því að hér er um mjög flókið samspil þátta heilbrigðiskerfisins að ræða við starfsemi annars staðar, í skólum, á vinnustöðum, í fangelsum, stöðu mála inni á heimilunum og svo framvegis. Það verður ekki allt keyrt í eitthvert eitt skipulag í þeim efnum. Þá kalla allar aðstæður á samvinnu og gott skipulag.

Varðandi snemmskimun og snemmtæka íhlutun leggjum við áherslu á það og að skimað eða leitað verði eftir þessum vandamálum tímanlega. Það var margt athyglisvert og lærdómsríkt sem fram kom í umfjöllun um þessi mál í nefndinni og hjá þeim gestum sem komu fyrir nefndina. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að margt kom mér á óvart sem ég hafði kannski aldrei hugsað út í, eins og það að jafn einfaldur hlutur og að færast milli skólastiga getur hér verið þó nokkur þáttur; það óöryggi sem það getur skapað fyrir barn að færast úr tiltölulega vernduðu umhverfi leikskólans þar sem haldið er tiltölulega þétt utan um börnin í fámennum hópum, upp í grunnskólann og síðan úr grunnskólanum upp í framhaldsskólann, getur verið eitt af því sem veldur ójafnvægi og óstöðugleika í lífi barna og ungmenna og jafnvel fara vandamál að skjóta upp kollinum sem eru tengd kvíða, þunglyndi og svo framvegis. Það er því afar mikilvægt að bregðast tímanlega við og taka á málunum.

Varðandi ADHD bentu margir á að þar væri ekki fjallað um málið í samræmi við stærð þess og alvarleika. Þar var á það bent af umsagnaraðilum að ADHD, sem telst að sjálfsögðu geðröskun, geðrænt vandamál — að um 5% barna í landinu greinast með slíkt. Þá aftur komum við að biðlistunum. Staðan undir lok árs 2015 var sú að um 400 börn voru á biðlistum eftir ADHD greiningu hjá Þroska- og hegðunarstöð og 390 börn á biðlista eftir einhverri greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Það eru því miður engar smáræðistölur þegar um er að ræða um 4.000–4.500 börn í hverjum árgangi í grunnskólanum. Þá sjáum við að um er að ræða ískyggilega stóran hóp í hverjum árgangi sem er geymdur á biðlistum eftir því að fá greiningu á sínum vanda, sem er mikilvægt fyrsta skref.

Það er svo allt rétt sem á var bent og fram hefur komið, að það er ekki nóg að menn fái greiningu, það verður að vera alveg ljóst hvað tekur við. Til dæmis er ekki nóg að heilsugæslan sé opin fyrir fólk og að þar séu ráðnir inn sálfræðingar og menn geti fengið sína fyrstu aðstoð með því að snúa sér þangað, þannig að heilsugæslan standi undir nafni sem fyrsta viðkomustöð kerfisins, það verður líka að vera ljóst hvað gerist í framhaldinu. Vandinn leysist ekki með einni komu á heilsugæslustöð eða með því að fá greiningu hjá Þroska- og hegðunarstöð eða Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Það á bara að vera fyrsta skrefið í því sem við tekur.

En það var líka upplýst að heilbrigðisráðherra hefur ákveðið og kannski þegar sett á fót starfshóp um þjónustu við börn með ADHD. Þeim hópi er ætlað viðamikið verkefni. Að einhverju leyti bíður málið eftir því að því starfi ljúki. Það verður þá vonandi hægt að taka það af fullum þunga með í næstu umferð. Það er afar brýnt að þessu starfi verði sinnt af kostgæfni og það dagi hvergi uppi. Það þarf að marka sérstaka stefnu og áætlun sem horfir sérstaklega til þessa hóps og barna og unglinga með þessi eða önnur tengd vandamál eða hliðstæð og vinna svo að því að stytta biðlistana og auka og efla þessa þjónustu.

Að lokum vil ég taka undir það sem þegar hefur verið sagt. Ræðumaður lítur svo á að hér sé um mjög mikilvægt fyrsta skref að ræða til umbóta á þessu sviði en langt í frá einhvern endanlegan sannleik. Að síðustu vil ég nefna að ég held að við Íslendingar þurfum að taka það mjög alvarlega til skoðunar ekki bara hvað við verjum litlum opinberum fjármunum til heilbrigðismála, (Forseti hringir.) og hvort sjúklingar bera mikinn kostnað, heldur líka hversu lágt hlutfall þess lága hlutfalls af vergri landsframleiðslu sem fer til heilbrigðismála á Íslandi fer til geðheilbrigðismála.