145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[15:32]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það var svo á síðasta kjörtímabili að forseti sendi skýrslurnar til mismunandi nefnda. Ég man að við tókum upp það verklag í þáverandi félags- og tryggingamálanefnd að allar þær skýrslur sem við fengum tókum við til umfjöllunar og skiluðum áliti af einhverju tagi. Ef við vorum ánægð þá sögðum við það o.s.frv., en samt sem áður skiluðum við áliti svo þess sæi stað í þingskjölum að Alþingi hefði kynnt sér allar skýrslurnar og sett sig inn í þær. Ég er alveg sammála því að það er fínt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé með þetta í sínum ranni, en mér finnst samt sem áður eins og margar af þessum skýrslum fari fram hjá okkur. Ég hef líka efasemdir um að sömu aðilar séu kallaðir fyrir mismunandi nefndir. Það á alveg rétt á sér í einhverjum tilfellum, en það verður svolítið ankannalegt. Í þessari skýrslu er verið að gagnrýna það að landlæknisembættið hafi ekki tekið að sér ákveðið hlutverk með ákveðnum hætti, þannig að þetta er sannarlega stjórnsýsla sem er ekki að virka sem skyldi, þó síðan sé bent á annað af hálfu ráðuneytisins, þar er annar skilningur á þessu. Mér fannst í raun og veru í þessari skýrslu að ráðuneytið brygðist kannski ekki við með nógu afgerandi hætti. Það var svolítið látið í veðri vaka að þetta væri allt á réttri leið. Það var ekki mjög handfast hvernig ætti að taka á þessu. En það er kannski tilefni fyrir nefndina að taka skýrsluna fyrir þó að það verði ekki fyrr en í haust þegar verða minni (Forseti hringir.) umsvif í nefndinni.