145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[15:34]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek algjörlega undir þetta. Þessi sjónarmið hafi einmitt verið rædd í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að fá skýrsluna frá Ríkisendurskoðun sem er í raun eftirlitsstofnun Alþingis. Ég mundi vilja sjá meira af því að við værum að ræða skýrslurnar í þingsal og eins og t.d. þessa skýrslu og værum þá með ráðherra til svara, vegna þess að þegar við erum að taka skýrslurnar fyrir erum við að tala við embættismennina, ráðherra ber síðan ábyrgð á sínu ráðuneyti og aðgerðum sem á að grípa til. Mér finnst við gera í rauninni of lítið af því í þessu eftirlitsstarfi sem fer fram í þingnefndum að kalla ráðherra til okkar til að geta spurt út í og þar fram eftir götunum. En ég mundi halda að umræða um að minnsta kosti mikilvægustu skýrslur Ríkisendurskoðunar ætti hreinlega heima í þingsal líka. Þá gætu allir tekið þátt, þá væru það ekki bara þeir sem sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem eru vel inni í þeim málum. Þannig er það. Ég er sammála.

En það var eitt sem ég gleymdi áðan, ég ætla bara að benda á það, sem varðar þessa umræddu skýrslu. Það var kostnaðurinn. Ríkisendurskoðun reiknaði út kostnaðinn vegna þessa málaflokks frá 2010–2014. Það sem vakti athygli mína var að það er um milljarður sem fer í umönnunargreiðslur en 3,2 millj. kr. eru vegna samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga 3,2 millj. kr. á þessum árum. Það er svo mikilvægt fyrir okkur að fá þessar upplýsingar og gera síðan eitthvað við þær. Þess vegna vil ég að allir þingmenn séu meðvitaðir um þessar skýrslur, lesi þær og við séum síðan með til að móta stefnu, því við erum oftar en ekki sammála um hlutina.