145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[15:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er við hæfi í umræðu um nefndarálit velferðarnefndar um fyrstu marktæku áætlun stjórnvalda um umbætur í geðheilbrigðisstefnu að hér sé allt með kyrrum kjörum, óvenju rólegt og þægilegt andrúmsloft. Þeir sem tala eru að megninu til sammála þrátt fyrir að umræðuefnið geti stundum og hafi kallað á annars konar viðbrögð en þau rólegheit sem ríkja í salnum við umræðu um þetta merka mál og nefndarálit.

Virðulegur forseti. Að öllu gríni slepptu ætla ég að byrja á því að þakka nefndarmönnum, samnefndarmönnum mínum í velferðarnefnd fyrir þá vinnu sem innt var af hendi við þetta mál og að það hafi tekist með samstilltu átaki að nefndin skilaði sameinuð nefndaráliti í þessu mikilvæga máli. Þetta eru fyrstu marktæku skrefin í áætlun stjórnvalda um umbætur í geðheilbrigðisþjónustu og eru þau löngu tímabær. Oftar en ekki og enn í dag er rætt um geðheilbrigðismál og það virkar stundum sem það gæti töluverðra fordóma í garð fólks sem á við geðheilsuvandamál að stríða. Oftar en ekki er það feimnismál, sem er miður vegna þess að þá sækja þeir síður til læknis sem eru hrjáðir af einhverjum slíkum kvillum er tilheyra geðheilbrigði okkar.

Það sem mér finnst markverðast í þessu fyrir utan þjónustuna í heild sinni og það sem ég ætla að taka á er að nefndin skerpir á í þjónustu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta. Í nefndarálitinu er gert ráð fyrir sérhæfðu geðheilsuteymi fyrir þann hóp. Það er mikilvægt að lögð sé áhersla á það í því sérhæfða teymi að þar sé heilbrigðisstarfsfólk sem talar táknmál, skilur táknmál og getur haft samskipti á því tungumáli því að bein tengsl í samskiptum heilbrigðisteymis og sjúklings hljóta að vera grunnatriði til þess að ná árangri, það ætti enginn milliliður að vera þar. Það er því brýnt að í slíku teymi sé fagfólk sem hefur tök á og talar táknmál, það sem við gerðum að jafngildu máli og íslenskuna hér ekkert alls fyrir löngu. Mér finnst ástæða, eins og öðrum, til að nefna þetta sérstaklega og leggja á það ríka áherslu.

Það er líka afar mikilvægt, eins og fram kemur í nefndarálitinu og í áætluninni, að gert er ráð fyrir að fjölga sálfræðingum á heilsugæslustöðum og heilbrigðisstofnunum. Það hlýtur samhliða að þýða, í það minnsta að mínum skilningi, að þegar einstaklingur kemur á heilsugæslustöðina, mætir þverfaglegu teymi þar sem er sálfræðingur til að ræða þann vanda sem við blasir og umræddur einstaklingur, hvort sem hann er barn, unglingur eða fullorðinn, þarf að leita áfram í víðtækara úrræði, að innan þess greiðsluþátttökukerfis sem nú hefur verið lagt fram, og er til umsagnar og verður tekið fyrir í velferðarnefnd þegar umsagnarfrestur er liðinn, gildi það sem þar stendur, að hafi einstaklingurinn farið á heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og fengið vísun þaðan á sérfræðing eigi það jafnt við um sálfræðinga og geðlækna sem aðra sérfræðinga í öðrum sjúkdómum. Ég leyfi mér að horfa á þetta í samhengi. Sitjandi í þessari ágætu nefnd mun ég að minnsta kosti beita mér fyrir því að þessi skilningur minn sé sá hinn sami og gildi af hálfu ráðherrans þegar hann leggur fram þetta frumvarp, því að þar kemur mjög skýrt fram að fyrsti viðkomustaðurinn sé heilsugæslan og fari vísun þaðan áfram sé hún fyrir þann sem fær þá þjónustu ekki háð þeim greiðslum sem hún er í dag. Ég held að ástæða sé til að taka þetta fram hér og nú til að skerpa á því sem síðar kemur til meðferðar nefndarinnar.

Það er mikilvægt í ljósi þess að við erum með umræðu um bæði skimun og snemmtæka íhlutun og með umræðu um biðlista og eflingu geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn að horfa til þess að í einu og sama sveitarfélaginu er væntanlega að finna heilsugæslu, leikskóla og grunnskóla og þessir þrír aðilar geta spilað saman þegar þarf að finna börn sem einhverra hluta vegna eru kvíðin, hvort sem þau eru innan tveggja ára aldurs eða komin á leikskóla. Það þarf að vera samspil milli stofnana sem fást við börn og unglinga og vinna með þeim frá degi til dags. Þær þurfa að geta talað saman og bent á þá þætti sem hugsanlega þyrfti að skoða og menn eru ræða í þessu nefndaráliti sem skimun og snemmtæka íhlutun. Allt upp að sex ára aldri fara börn í heilbrigðiseftirlit og síðan tekur skólinn við. Það ætti að vera auðvelt um vik fyrir okkur í því þétta samfélagi sem við búum í að finna þau börn sem glíma við vanda sem snýr að geðheilsu þeirra, til að geta beitt snemmtækri íhlutun. Þá hlýtur að vera grundvallaratriði, hér sem endranær, að það er ekki nægjanlegt að greina vandann heldur verða að vera til einhver úrræði sem viðkomandi aðila er beint í og haldið utan um hann. Það er grundvallaratriði í þessum sjúkdómum sem hér heyra undir sem og öllum öðrum.

Þegar við ræðum geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga hljótum við að þurfa að hafa sérhæft teymi einstaklinga vegna þess að sú þjónusta sem þeir aðilar þurfa á að halda kann að vera með allt öðrum hætti en þegar um fullorðið fólk er að ræða sem greinist hugsanlega seint í aldursstiga. Ég segi stundum að eins lengi og elstu menn muna hefur verið biðlisti á BUGL og eftir þjónustu á barna- og unglingageðdeildinni, sem skammstöfuð er BUGL. En við gætum hugsanlega með snemmtækri íhlutun komið í veg fyrir allan þann fjölda sem þarf að sækja þangað og væntanlega þjónustað þau börn og þá unglinga eins vel og við getum í nærumhverfi þeirra og veitt þeim þau úrræði sem tiltæk eru til að gera þeim lífið bærilegra í því samfélagi sem þau lifa og hrærast í. Það að taka einstaklinga alltaf úr umferð og setja þá sér er kannski sísta lausnin á vandkvæðum þeirra og horfa þarf til þess í þverfaglegu teymi hvað nærsamfélagið getur gert til að draga úr kvíða og vanlíðan og veita börnum og unglingum aðstoð og úrræði.

Oftar en ekki þegar við ræðum um þverfaglegt teymi teljum við og treystum því að allir skynji hvað í því felst og að áherslan verði lögð á fyrsta stigi heilbrigðisþjónustunnar, í heilsugæslunni, að það sé alltaf þverfaglegt teymi sem getur tekið við einstaklingnum og beint honum í úrræði sem hugsanlega skarast innan heilbrigðisstéttanna sem og innan skólasamfélagsins, til þess að sá sem glímir við vandann fái lausn mála sinna en ekki að það skipti meginmáli hver innan kerfisins veiti þjónustuna.

Virðulegur forseti. Hér inni og í nefndarálitinu er smákafli sem heitir Leiðbeiningar fyrir fjölmiðla. Nefndin var sammála um að hvorki ríkisvaldið né nefndin sjálf gæti haft eftirlit með eða gefið fjölmiðlum skýr skilaboð um það á hvaða hátt þeir ættu að fjalla um þetta. En hins vegar hefur það vakið furðu, og ég ætla að segja það upphátt, að fjölmiðlar hafa stundum tilgreint í fréttaflutningi að um sé að ræða mann eða konu með geðræn vandamál eða um sé að ræða mann eða konu af erlendum uppruna, en við tölum ekki um að hann hafi verið frá Ísafirði eða Siglufirði eða Akureyri eða Akranesi, nei. Ekki heldur hvort hann hefur verið hjartveikur eða með krabbamein eða botnlanginn kannski tekinn úr honum morguninn áður, nei. En okkur finnst ástæða til að nefna í fjölmiðlum að einstaklingurinn eigi við geðræn vandamál að stríða og sé jafnvel af asískum uppruna.

Þetta gerir ekkert annað en ala á fordómum og er algjörlega fáránlegt. Ef það má ekki segja þetta upphátt við fjölmiðla erum við illa stödd.

Það vekur stundum furðu mína að við Íslendingar, þessi fámenna, sterka, vel gerða þjóð, skulum vera með allar þessar greiningar. Ég held við sláum heimsmet í greiningum, ég er eiginlega alveg viss um það, í hvers kyns greiningum. Mér finnst ástæða til að skoða hvað í veröldinni veldur því að börn, unglingar og síðan fullorðnir eru hér með greiningar og oftar á lyfjum vegna greininga en nokkurs staðar annars staðar í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Er það fólgið í því af því við höfum ekki haft þverfaglegt teymi til að þjónusta einstaklingana í nærumhverfinu og það hefur verið einfaldast að setja einstaklinga á lyf til að róa þá eða draga úr þessu eða draga úr hinu? Ég veit ekki af hverju, hvers konar lyf það eru eða hvað en mér finnst það áhyggjuefni. Við eigum að velta því fyrir okkur hvers vegna þetta er svona hjá okkur.

Engu að síður fagna ég því átaki sem á að fara í með skipun starfshóps sem mun skoða hvers konar þjónustu við getum veitt börnum sem eru til dæmis með ADHD og að aukin verði áherslan á þann þátt sem og annan með þverfaglegri aðstoð við börn og unglinga og fullorðið fólk í því nærsamfélagi sem það býr í hverju sinni.

Virðulegur forseti. Fyrst og síðast fagna ég því að þessi skref séu stigin og að þessi þingsályktunartillaga skuli liggja frammi sem vonandi, og ekkert vonandi, sem verður fylgt eftir af hálfu þingmanna með fullri reisn, að ráðherra, heilbrigðisstofnanir og heilbrigðissamfélagið sinni þessu og taki tillit. Það þarf líka að segja að hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherrar í náinni framtíð þurfa allir að átta sig á því að þetta kallar á aukið fjármagn. Til þess verða menn að horfa.