145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vekja athygli á alþjóðlegri ráðstefnu sem var nú í vikunni í Hörpu. Annars vegar var um að ræða alþjóðlega ráðstefnu um nýtingu jarðvarma og samhliða ráðstefnu um SPI-vísitöluna sem er skammstöfun fyrir, með leyfi forseta, Social Progress Index sem er mat á félagslegum innviðum og mælikvarði á samfélagslegar framfarir. Auðvitað gefst ekki tími núna til að fara mjög náið í þá vísitölu, ég geri það mögulega síðar. Á ráðstefnuna komu gestir frá öllum heimshornum, um 40 þjóðlöndum og auðvitað með þátttöku okkar helstu aðila á þessu sviði. Þetta er þriðja ráðstefnan sem haldin er á sviði jarðvarma hér, sú fyrsta var 2010, og er merki um hversu framarlega við erum á þessu sviði með fjölþætta nýtingu jarðvarma, en ekki síður er þetta merki um vel heppnað klasasamstarf á þessu sviði.

Þetta var hugmynd Michaels Porters, prófessors við Harvard-háskólann, þegar hann heimsótti Ísland 2009. Góðir hlutir gerast þegar vísindamenn og fræðimenn, fulltrúar stjórnvalda, stjórnsýslu og viðskiptalífs koma saman. En ég verð að segja að það sem vantar til að fylgja þessu frábæra starfi sjálfsprottinna klasa eftir er opinber stefna. Dæmi um vel heppnaða sjálfsprottna klasa eru íslenski jarðvarmaklasinn, sjávarklasinn og ferðaklasinn er kominn af stað. Ég hvet stjórnvöld og atvinnu- og nýsköpunarráðherra til dáða á þessu sviði.