145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Opinber rannsókn á tilurð aflandsfélaga er algjörlega nauðsynleg. Við verðum að fá svör við því hvernig þau urðu til og hvaðan peningarnir komu. Við vitum að þeir rúmlega 5 þús. milljarðar sem íslenska bankakerfið tók að láni fyrir hrun á skuldabréfamörkuðum voru veittir áfram að láni inn í eignarhaldsfélög. Hinn svokallaði „Gervimaður útlönd“ var annar stærsti þiggjandi arðgreiðslna íslenskra fyrirtækja árið 2008 upp á 2.239 millj. kr., en auk þess voru sex af tíu stærstu arðþiggjendum það ár félög á Bresku Jómfrúreyjum eða stofnsett erlendis af Íslendingum. Enginn veit hvaða tekjur aflandseigendurnir hafa haft af þessum félögum. Gervimaður útlönd fékk hæstan arð greiddan af einstaklingum árið 2006 upp á 1.234 millj. kr. Hann fékk líka hæstu arðgreiðslu tvö árin þar á eftir. Árið 2007 fékk gervimaðurinn 2.909 millj. kr. og 2008 2.239 millj. kr. í arð. Þessar upplýsingar og fleiri um Gervimann útlönd er að finna í 9. bindi rannsóknarskýrslu Alþingis. Þá ágætu skýrslu ættum við sem flest að lesa aftur og fara eftir þeim úrbótum sem þar er bent á og ekki hefur verið brugðist við.

Nú höfum við fengið nöfn á suma gervimennina og nokkrir þeirra eru með kunnugleg andlit. Sumir láta eins og í einhverjum tilfellum séu aflandsfélög nauðsynleg fyrir viðskipti, en það er rangt. Þau eru alltaf til þess að leyna og komast hjá skattgreiðslum, líka aflandsfélagið sem einu sinni var í eigu hæstv. fjármálaráðherra. Það er engin leið að sætta sig að milljarðar hafi verið fluttir úr landi rétt fyrir hrun og geymdir í skjóli á meðan stjórnvöld og almenningur glímdu við afleiðingar hrunsins, bjuggu við skattahækkanir og niðurskurð á öllum sviðum til að bjarga ríkissjóði frá gjaldþroti og verja velferðarkerfið. Gervimaður útlönd slapp vel á meðan við hin greiddum hans hlut til samfélagsins.


Efnisorð er vísa í ræðuna