145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að ræða þá stöðu sem uppi hefur verið í samfélaginu undanfarið og það ástand sem ríkt hefur á hinu háa Alþingi. Ég vil líka nefna það að allt frá því að ég varð þingmaður fyrir rétt rúmum þremur árum síðan — í gær var þriggja ára afmæli okkar þingmanna sem erum nýir á þingi — hef ég alltaf hvatt til þess að ríkisstjórnin og Alþingi mundu hafa samráð við fólkið í samfélaginu, miklu meira samráð við alla hagsmunaaðila, kalla alla að borðinu til þess að reyna að finna lausnir fyrir samfélagið sem geta skapað sátt.

Því miður hefur það ekki verið raunin en ég get alveg tekið undir með þeim stjórnarþingmönnum sem hafa komið upp og sagt að hér gangi margt ágætlega. En það er líka ekki hægt að líta fram hjá því að það er margt sem ekki gengur vel. Það hefur aldeilis ekki verið slegið á þá óvissu, sundrung og tortryggni sem verið hefur í samfélaginu allt frá hruni, því miður. Ég held að það hefði átt að vera eitt helsta mál okkar hér á þingi að reyna að skapa sátt.

Ég get alveg sagt frá mínum dýpstu hjartarótum að ég er ekki ánægður með þá stöðu sem uppi er. Ég er ekki ánægður með að ríkisstjórnin skuli vera í þessum málum. En hún er samt í þessum málum og það skiptir engu máli þó að allt sé ef til vill á blússandi uppleið í efnahagslífinu, hér hefur orðið trúnaðarbrestur. Ég segi, og hef sagt það áður, að það mikilvægasta í mannlegum samskiptum er traust, ekki síst í stjórnmálum.

Það er það sem fólk er að mótmæla. Það er það sem fólk kallar eftir, að við hér, þau 63 sem hér stöndum, þar á meðal ríkisstjórnin, endurnýjum umboð okkar svo við getum byrjað upp á nýtt, því að við þurfum að gera það.

Ég held að það sé ekki of mikil frekja í stjórnarandstæðingum, eða hvað sem þið viljið kalla það, að biðja ríkisstjórnina að tiltaka kannski tíu mál sem hægt væri að afgreiða nú í vor og boða svo til kosninga strax í ágúst eða í byrjun september. Það getur ekki verið frekja vegna þess að það er skýlaus (Forseti hringir.) krafa almennings að kosið verði og að við endurnýjum umboð okkar öll hér, öll sem eitt.