145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[11:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna því að við séum komin á þann stað að samþykkja fyrstu stefnumörkun og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Við sem að þessu unnum í velferðarnefnd erum sammála um að þetta sé gott fyrsta skref en það þarf auðvitað meira til. Fjármunir þurfa að fylgja þessum aðgerðum á komandi missirum í heilsugæslunni og framhaldsskólunum þar sem ráðnir verða sálfræðingar til að byggja upp öflug, þverfagleg teymi og þar fram eftir götunum. Ég vil svo beina því til hæstv. ráðherra að þessi stefna verði, ja, kannski ekki strax en mjög fljótlega sett í endurskoðun þannig að innan tveggja ára liggi fyrir drög að næstu fjögurra ára áætlun og komi fyrir þingið þar sem búið verði að styrkja stefnumótunarþáttinn í pakkanum þannig að hér sé ekki fyrst og fremst um að ræða aðgerðaáætlun til tiltekins tíma heldur líka heildstæða stefnumótun. Það væri æskilegt að færa þetta í þann farveg að með reglubundnum hætti væri slík stefna og aðgerðaáætlun uppfærð á tveggja ára fresti og að við hefðum alltaf framan við okkur gilda fjögurra ára áætlun á þessu sviði.