145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[11:09]
Horfa

Elín Hirst (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að við erum að afgreiða þetta mál hér í dag, þakka heilbrigðisráðherra líka fyrir aðkomu hans að málinu. Að mínum dómi verðum við að taka í faðminn og hjálpa þeim börnum og ungmennum sem eiga við geðraskanir að stríða en sá hópur fer því miður stækkandi með hverju árinu. Við verðum að halda fast utan um þessi mál hér á landi og ekki láta deigan síga. Þrátt fyrir að þetta sé gott fyrsta skref verður þetta að vera upphafið að einhverju meiru vegna þess að við viljum komast til botns í þessum vanda og við viljum að börnunum okkar hér á landi líði vel, ekki bara líkamlega heldur líka andlega. Ég hvet allan þingheim til að styðja þetta mál.