145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[11:11]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað um þetta gleðilega fyrsta skref í áætlun og stefnu í geðheilbrigðismálum. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa lagt málið fram. Eins og hefur komið fram er þetta fyrsta skref og mjög mikilvægt fyrsta skref.

Eins og fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem gefin var út í febrúar um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga er pottur brotinn í þessum málum. Við þurfum aldeilis að spýta í lófana til að takast á við geðheilbrigðismál á Íslandi.

Eins og komið hefur fram hafa um 38% þeirra sem eru á örorku lent á henni vegna andlegra veikinda þannig að til mikils er að vinna. Við eigum ekki að hugsa mikið um hvað við leggjum mikinn pening í þetta því að þetta er fjárfesting. Peningar sem eru lagðir inn í geðheilbrigðismál strax á fyrstu stigum skila sér margfalt til baka, það hafa rannsóknir sýnt.